Skýrslan kostaði 90 þúsund krónur

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, og Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, og Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skýrslan sem Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður og varaformaður fjárlaganefndar, kynntu í gær um endurreisn bankakerfisins á árunum 2009-10 kostaði samtals 90 þúsund krónur og var kostnaðurinn greiddur úr vasa þeirra sjálfra. Þetta segir Guðlaugur í samtali við mbl.is og segir að vinna við skýrsluna hafi verið í höndum þeirra tveggja. Starfsmenn þingnefndarinnar hafi ekki unnið hana.

Skýrslan var kynnt sem skýrsla meirihluta fjárlaganefndar. Í viðtali við mbl.is í dag sagði Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og 2. formaður nefndarinnar, að engin umræða eða kynning á henni hefði átt sér stað innan nefndarinnar. Skýrslan hefur heldur ekki verið birt á vef Alþingis.

Nefndarskjöl þurfa að fara í gegnum umræðu nefnda

Spurður út í hvort skýrslan sé opinbert gagn og verði birt eins og önnur þingskjöl segir Guðlaugur að enn eigi eftir að meta næstu skref og hvernig farveg skýrslan verði sett í. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir við mbl.is að til að skjöl frá þingnefndum séu birt þurfi þau að fara í gegnum nefndina og geti komið þaðan m.a. sem skýrslur nefndarinnar í heild eða sem meirihlutaskýrsla.

Segir Helgi að meirihluti nefndar hafi rétt á að birta skýrslur sínar sem þingskjöl og að nefnd geti sjálf ákveðið að taka ákveðin mál til skoðunar og gera skýrslu um slíkt málefni.

Vísar hann þar í 26. grein laga um þingsköp Alþingis, en þar segir: „Nefnd getur, ef hún telur ástæðu til, gefið þinginu skýrslu um athugun sína skv. 1. mgr. þar sem gerð er grein fyrir ábendingum og athugasemdum nefndarinnar um það málefni sem hún hefur tekið upp. Í skýrslunni er heimilt að gera tillögu til þingsályktunar og kemur tillagan til afgreiðslu við lok umræðunnar um skýrsluna.“

Verður ólíklega að þingmáli

Það er því ljóst að þingnefnd eða meirihluti hennar getur skoðað mál og tekið það upp án beiðni frá þinginu, en að slík skýrsla verður ekki að skjali nefndarinnar fyrr en það hafi verið tekið upp hjá nefndinni.

Málið verður tekið fyrir á fundi fjárlaganefndar á morgun að sögn Gunnlaugs. Fastur fundartími nefndarinnar er á morgun klukkan níu. Guðlaugur segir málið upphaflega hafa verið skráð hjá þingnefndinni 27. apríl, en að ekki sé ljóst hvert áframhald málsins sé og ólíklegt að það verði tekið fyrir á þessu þingi.

Frétt mbl.is: Tugmilljarða meðgjöf með bönkunum

Frétt mbl.is: Bera Steingrím þungum sökum

Frétt mbl.is: Langt seilst til að friða kröfuhafa

Frétt mbl.is: Gefur ekki mikið fyrir skýrsluna

Frétt mbl.is: Nefndin notuð í pólitískum tilgangi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka