„Þetta er ekki skrípasamkoma“

Skýrslan sem þingmenn deila um.
Skýrslan sem þingmenn deila um. mbl.is/Eggert

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu harðlega nýja skýrslu sem Vigdís Hauksdóttir, formaður og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, kynntu í gær um einkavæðingu bankanna hinna síðari. Þá voru skýrsluhöfundar sakaðir um að misnota nefndina í pólitískum tilgangi. „Þetta er ekki skrípasamkoma“ sagði þingmaður Samfylkingarinnar.

Í skýrslunni er Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, m.a. borinn þungum sökum, en hann er sakaður um að hafa án lagaheimildar sem fjármálaráðherra tekið yfir verkefni Fjármálaeftirlitsins við endurreisn bankakerfisins og gengið til samninga við kröfuhafa í stað þess að fylgja neyðarlögunum. Þá kom fram að ábyrgðin á einka­væðing­unni hafi fyrst og fremst verið hjá skatt­greiðend­um en ávinn­ing­ur­inn hafi farið til kröfu­haf­a.

Guðlaugur Þór Þórðarson og Vigdís Hauksdóttir kynntu skýrsluna fyrir blaðamönnum …
Guðlaugur Þór Þórðarson og Vigdís Hauksdóttir kynntu skýrsluna fyrir blaðamönnum í gær. mbl.is/Eggert

Þingmenn ræddu málið í umræðu um störf þingsins á Alþingi í dag.

Heimavinna þingmanna

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að blaðamannafundur sem formaður og varaformaður fjárlaganefndar boðuðu til í gær, sýni í hnotskurn eina af ástæðum þess að stjórnmál og umræðuhefð eigi í alvarlegum vanda. Hún benti á að skýrslan hefði ekki verið kynnt fjárlaganefnd með formlegum hætti né lagt fyrir nefndina til umfjöllunar. Geri minnihlutinn alvarlegar athugasemdir við það. 

„Þetta birtist mér sem heimavinna þingmanna og byggir meira og minna á klippum úr öðrum skýrslum sem er raðað saman í eina súra samsæriskenningu um að þáverandi fjármálaráðherra [Steingrímur J. Sigfússon] gengi erinda erlendra kröfuhafa,“ sagði Bjarkey og bætti við að Vigdís og Guðlaugur væru að misnota nefndina í pólitískum tilgangi. 

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Eggert

Hið furðulegasta mál

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði að hún væri ringluð yfir vinnubrögðum formanns og varaformanns fjárlaganefndar í málinu.

„Mér finnst þetta hið furðulegasta mál í alla staði,“ sagði hún og vísaði til þess að skýrsla Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um sama mál, hefði sýnt fram á að ekkert vafasamt hefði átt sér stað. Hún óskaði eftir því að fá að heyra álit annarra þingmanna í meirihluta fjárlaganefndar, þ.e. um aðkomu þeirra að þessari skýrslu sem var kynnt í gær.

Birgitta sagði að það væri furðulegt að minnihlutinn hefði ekki verið upplýstur um inntak skýrslunnar áður en málið var kynnt fyrir fjölmiðlum.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Skýrslan til umræðu á á fundi fjárlaganefndar á morgun

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem á sæti í fjárlaganefnd Alþingis, sagði að skýrslan hefði farið af stað í nefndinni 26. apríl sl. og þar af leiðandi verið á dagskrá nefndarinnar áður. Haraldur bætti við að hann væri í sjálfu sér ekki ósammála úttekt Brynjars Níelssonar en í þeirri skýrslu hafi ekki öllum spurningum verið svarað. Til dæmis að, með hliðsjón af óvissu um verðmæti eignanna, af hverju ekki hefði verið gert samkomulag um skiptingu virðisauka eins og gert hefði verið í samningum um Landsbankann. Brynjar hefði því einnig haft uppi viðvörunarorð og spurningar sem verið væri að reyna að fjalla um í skýrslu Vigdísar og Guðlaugs. Hún byggði enn fremur á nýrri upplýsingum. Skýrslan kæmi svo til umræðu í fjárlaganefnd á morgun. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði áhugavert að þingmenn væru fyrst og fremst að ræða um form skýrslunnar en ekki efni hennar. Hann sagði að það væri rétt hjá Birgittu að nýja skýrslan vísaði í efni sem væri að finna í eldri skýrslum, úttektum og svörum. „Þetta er gert til þess að aðilar geti nú rakið sig áfram í gegnum þetta. Ég myndi nú ætla það að þeir sem í orði kveðnu tala um mikilvægi þess að hafa allt uppi á borðum og gagnsæi og slíkt, myndi fagna því að þessar upplýsingar séu settar fram með þessum hætti - en það er ekki.“

Menn læri af mistökunum

Guðlaugur ítrekaði að niðurstaða skýrslunnar hefði verið sú að ábyrgðin á einkavæðingunni hefði verið fyrst og fremst hjá skattgreiðendum en ávinningurinn hefði farið til kröfuhafanna. En þar sem núverandi ríkisstjórn hefði haldið vel á málunum og hagsmunum skattgreiðenda hefði þetta allt farið vel. „En við komumst ekki hjá því, virðulegur forseti, að skoða þessi mál í samhengi við önnur sambærileg mál á síðasta kjörtímabili,“ sagði Guðlaugur og vísaði m.a. í Icesave-málið, mál Sparisjóðs Keflavíkur og Dróma. Menn gætu ekki komist að annarri niðurstöðu en að ekki hefði verið haldið vel á málum af hálfu þeirra sem þá voru í forystu í landsstjórninni. „Það er mikilvægt að læra af mistökunum,“ sagði Guðlaugur enn fremur.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn

Forseti þingsins verði að verja nefndir gegn yfirgangi 

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði alvarlegar athugasemdir við skýrslu meirihluta fjárlaganefndar sem þingmaður sem ætti sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Hann sagði að í skýrslunni, sem Vígdís og Guðlaugur hefðu sett fram í eigin nafni, væru settar fram ávirðingar um mál sem hefði verið til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins og efnisleg afgreiðsla hefði þar náðst um málið. „Við hverju er að búast í framtíðinni? Megum við búast við að meirihluti umhverfisnefndar komi með álit um neyðarlögin og forsendur þeirra, eða eitthvað annað fráleitara?“ spurði Árni Páll. 

„Það er mjög mikilvægt að þingið hafi eftirlits- og rannsóknarhlutverk gagnvart framkvæmdavaldinu. En hæstvirtur forseti verður að verja réttar nefndir þingsins fyrir yfirgangi fólk sem gengur fram með þessum hætti, eins og formaður og varaformaður fjárlaganefndar. Misnota aðstöðu sína, leggja málið aldrei fyrir nefndina og hæstvirtur forseti ber skylda til þess að verja eftirlitshlutverk þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu með skýrum hætti og stöðva svona framgöngu.“

Staðlausir stafir

Guðlaugur Þór tók þá til máls og sagði að Árni Páll færi fram með staðlausa stafi. Málið hefði verið skráð inn í nefndina 26. apríl þar sem lagðir hefðu verið fram spurningalistar og öllum fulltrúum í nefndinni hefði verið boðið að leggja fram spurningar í tengslum við málið. 

Guðlaugur Þór áréttaði að í nýju skýrslunni væri ekki verið að fjalla um málið með sama hætti og gert hefði verið í skýrslu Brynjars Níelssonar, því nýjar upplýsingar hefðu komið fram sem væri að finna í skýrslu meirihluta fjárlaganefndar sem var kynnt í gær, en allt tengdist þetta hagsmunum skattgreiðenda.

Þá sagði hann að það væri mjög alvarlegt ef fjárlaganefnd mætti ekki taka upp mál þó að önnur nefnd væri búin að fjalla um það.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Stórhættulegt ef ofstopamenn geti gengið fram

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagði samkvæmt 26. gr. þingskaparlaga væri kveðið á um mjög rúmar heimildir nefnda til að fjalla um mál sem heyrðu til málefnasviðs þeirra, jafnvel þó að þingið hefði ekki vísað þeim sérstaklega til viðkomandi nefndar. Almenna reglan væri sú að nefndir væru mjög sjálfstæðar í sínum störfum og þar af leiðandi ekki eðlilegt að forseti þingsins hefði afskipti af þeim nema sérstakt tilefni væri til. Það ætti ekki við í þessu máli.

Árni Páll kvaðst vera ósammála forseta þingsins. Tilefni væri til að grípa inn í þetta mál vegna þess að nefndin hefði ekki verið að afgreiða þetta mál. Árni Páll sagði að skýrslan, sem væri aðhlátursefni í samfélaginu því hún væri svo illa unnin, hefði aldrei verið lögð fyrir nefndina til umræðu. Minnihlutinn hefði ekki fengið tækifæri til að taka efnislega afstöðu til skýrslunnar. 

„Það er stórhættulegt fordæmi ef það er þannig að ofstopamenn í forystu fyrir þingnefndir eiga að geta gengið fram og búið til réttarhöld yfir pólitískum andstæðingum sínum án þess að þeir fái einu sinni tækifæri til þess að koma fyrir nefnd og setja sín sjónarmið á framfæri. Ég ætla rétt að vona að Alþingi Íslendinga breytist ekki í svoleiðis skrípasamkomu,“ sagði Árni Páll.

Málið er ekki komið til þingsins fyrr en allir nefndarmenn hafa fengið að tjá sig

Einar K. Guðfinnsson bætti þá við að meirihluti nefndar gæti tekið ákvörðun um að taka upp mál á grundvelli 26.gr. þingskaparlaga. Það væri hins vegar rétt að þetta mál hefði ekki hlotið afgreiðslu út úr nefndinni fyrr en að hún hefði fengið tækifæri til að taka afstöðu til málsins. „Og sem slíkt er málið þar með ekki komið inn til þingsins fyrr en þeirra afgreiðslu lýkur.“

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að skýrslan sem var kynnt í gær yrði ekki formleg skýrsla fjárlaganefndar fyrr en hún yrði afgreidd út úr nefndinni með meirihluta þingmanna. „Það er alveg hreint óskiljanlegt að reyndur þingmaður eins og Guðlaugur Þór Þórðarson leyfi sér að ganga fram með þessum hætti. Og þakka forseta fyrir að hafa verið svona skýr í orðum sínum um það að þetta eru fáheyrð og óheyrð vinnubrögð þangað til núna. Svo segja menn: „Við ætlum að gera þetta á morgun.“ Það er búið að kynna þetta fyrir þjóðinni eins og þetta sé afgreitt mál frá þinginu. Þetta er ekki skrípasamkoma,“ sagði Valgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka