Bubba og Rúv birt stefna

Steinar Berg Ísleifsson, fyrrverandi hljómplötuútgefandi.
Steinar Berg Ísleifsson, fyrrverandi hljómplötuútgefandi. mbl.is/Árni Sæberg

Stefna Steinars Berg Ísleifssonar, fyrrverandi hljómplötuútgefanda, gegn Bubba Morthens og Rúv fyr­ir ærumeiðandi um­mæli  og birt­ingu þeirra, var birt fyrir þeim fyrr í þessari viku. 

Frétt mbl.is: Vill engan „skítablett“ á ferlinum

Ekki hefur verið ákveðið hvenær Héraðsdómur Reykjavíkur tekur málið fyrir. 

Ástæðan fyrir stefnunni eru ummæli  Bubba í sjónvarpsþættinum Popp- og rokksaga Íslands á Rúv þar sem hann sakaði Steinar Berg um að hafa sem útgefandi hans brotið á sér er hann starfaði með hljómsveitunum Utangarðsmönnum og Egó á níunda áratugnum.

Ekkert samband við Bubba

Aðspurður segir Steinar Berg að Bubbi hafi ekki haft samband við sig eftir að hann ákvað að stefna honum. „Hann svaraði mér með svo miklum skætingi, bæði hér og annars staðar, og ég er svo hissa á því. Þar fullyrðir hann að hann hafi verið misnotaður og hlunnfarinn. Svo er hann að gera svo mikið úr þessari dópneyslu sinni,“ segir hann.

Kókaínneyslan átti ekki við 

Steinar Berg kveðst hafa flutt til Englands í byrjun árs 1983 og því hafi hann ekki verið staddur hér á landi að semja við Bubba á þeim tíma. Hann hafi aftur á móti samið við hann á árunum 1980 til 1982. Þá hafi Bubbi verið í mjög góðu formi og æft box og karate.

„Maður vissi að það var slark líferni á Utangarðsmönnum en ég sá það ekki neitt. Ég fór aldrei á túr með Utangarðsmönnum. En Bubbi segir í ævisögu sinni að hann hafi ekki farið að nota kókaín fyrr en seint á árinu 1982 og að það hafi orðið vandamál eftir Ameríkuförina ´84. Þannig að kókaínneyslan sem hann er að tala um, hún á ekki við þegar við erum að tala saman. Fyrir utan það var ég aldrei með lögfræðing á fundi með Bubba. Ég skil þetta ekki alveg,“ segir Steinar Berg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert