„Ekki til að auka virðingu Alþingis“

Oddný Harðardóttir, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar.
Oddný Harðardóttir, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar.

Skýrsla sú sem Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson kynntu á blaðamannafundi á mánudag og fjallar um endurreisn bankanna var ekki rædd efnislega á fundi fjárleganefndar í morgun, eins og til stóð.

Á fundinum lagði Oddný Harðadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fram spurningalista með stuðningi minnihluta fjárlaganefndar. Hún sagðist ekki vilja taka skýrsluna til efnislegrar umfjöllunnar án þess að ákveðin atriði lægju ljós fyrir.

„Ég lagði fram, með stuðningi minnihlutans, spurningar um samningu skýrslunnar; hver hefði samið hana, hvaða sérfræðingar hefðu fengið greitt og fyrir hvaða vinnu, og um aðkomu annarra í meirihlutanum en formanns og varaformanns. Og síðan hvort þeir sem eru bornir þungum sökum í skýrslunni hefðu fengið að bera hönd fyrir höfuð sér eða segja sína hlið,“ segir Oddný.

Hún óskaði eftir skriflegum svörum og segir meirihlutann hafa tekið vel í að málið yrði þá rætt þegar þau lægju fyrir.

Guðlaugur Þór og Vigdís Hauksdóttir kynntu skýrsluna á mánudag en …
Guðlaugur Þór og Vigdís Hauksdóttir kynntu skýrsluna á mánudag en hún var lögð fram í nafni meirihluta fjárlaganefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Oddný gagnrýnir vinnubrögðin bakvið skýrsluna harðlega.

„Það er náttúrlega forkastanlegt að forystumenn fjárlaganefndar blási til blaðamannafundar í nafni nefndarinnar um skýrslu þar sem verið er að bera fólk þungum sökum og það er ekki búið að taka málið fyrir í nefndinni og það er ekki búið að tala við þetta fólk,“ segir hún.

„Við vinnum bara ekki svona. Þetta er ekki til að auka virðingu Alþingis, það er áreiðanlegt.“

Oddný segir ekki á hreinu hvers eðlis umrætt plagg er, það sé a.m.k. ekki þingskjal þar sem ekki hefur verið fjallað um það.

En liggur fyrir að það sé sannarlega frá meirihlutanum komið, líkt og komið hefur fram?

„Þau rita ekki nöfn sín undir þannig að maður veit það ekki en ég hef ekki heyrt neitt þeirra mótmæla. En ég vil bara fá að vita það, fá það bara á prenti hver aðkoma þeirra var.“

Til stóð að fjárlaganefnd fundaði á morgun en sá fundur hefur verið afboðaður. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvenær nefndin hittist næst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert