„Það er í raun ekkert um þetta að segja. Það er ekkert í þessum tölvupósti,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, í samtali við mbl.is.
Fjölmiðlar hafa fjallað í dag um tölvupóst sem hún sendi fyrir slysni á blaðamann Stundarinnar í staðinn fyrir fulltrúa Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd þar sem meðal annars kemur fram að hún hafi óttast að Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fengi skýrslu meirihluta nefndarinnar um endurreisn bankakerfisins í hendur áður en hún yrði birt opinberlega sem gert var fyrr í þessari viku.
Vigdís segir að sá ótti hafi einungis snúist um það að blaðamannafundur, þar sem skýrslan var kynnt, missti marks ef efni skýrslunnar hefði verið lekið áður í fjölmiðla. Fyrir vikið hafi hún lagt ríka áherslu á að efni hennar yrði ekki gert opinbert áður en fundurinn var haldinn. „Áhyggjur mínar sneru bara að því. Það vita það allir blaðamenn að ef einhverju er lekið fyrir blaðamannafund þá er blaðamannafundurinn ónýtur.“
Steingrímur hefur harðlega gagnrýnt vinnubrögðin við skýrslugerðina. Meðal annars í samtali við mbl.is í kvöld. Þannig hafi ekki verið rætt við þá sem komi við sögu í skýrslunni og þeim ekki veittur andmælaréttur. Hefur hann borið skýrsluna að því leyti saman við rannsóknarskýrslur á vegum Alþingis. Vigdís segir þann samanburð engan veginn eiga við.
„Þetta er ekki rannsóknarskýrsla. Rannsóknarskýrslur eru samdar af rannsóknarnefndum með víðtækar rannsóknarheimildir. Það á ekki við um þessa skýrslu. Þarna er fyrst og fremst verið að draga saman á einn stað upplýsingar um þessi mál og varpa ljósi á atburðarásina,“ segir Vigdís. Fjárlaganefnd hafi einfaldlega verið að sinna lögboðnu eftirlitshlutverki sínu.
„Við fengum ábendingu frá borgara um að þarna hefði ekki allt verið með felldu og við hefðum verið að bregðast trausti almennings ef við hefðum ekki brugðist við því. Við erum önnur af eftirlitsnefndum Alþingis og berum ábyrgð á því að hafa eftirlit með fjárreiðum ríkisins og þarna var um að ræða 300 milljarða króna af fé skattgreiðenda.“
Þannig eigi andmælaréttur ekki við í þessu tilfelli. Einungis sé um samantekt á gögnum að ræða sem liggi fyrir. Hún bendir á að þingsályktun um að sett verði á fót rannsóknarnefnd vegna seinni einkavæðingar bankanna sé enn óafgreidd af Alþingi og umræddri skýrslu sé alls ekki ætlað að koma í stað hennar. Steingrímur sé á villigötum í þessum efnum.
Vigdís furðar sig á því að lokum á því hvernig stjórnarandstæðingar hafi forðast það eins og heitan grautinn að ræða efnislega um skýrsluna. Öll umræðan hafi snúið um tæknileg formsatriði eins og málfar og annað slíkt en ekki efnið. „Ég bara skil ekki hvers vegna þetta fólk er ekki tilbúið að taka umræðuna við okkur um efni málsins. Þetta er orðið svo skrítið að það liggur við að það sé rætt um það hvaða pappír hafi verið notaður.“