Tæpur helmingur leikskóla fullmannaður

31 af 64 leikskólum Reykjavíkurborgar eru fullmannaðir þessa dagana.
31 af 64 leikskólum Reykjavíkurborgar eru fullmannaðir þessa dagana. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

71 stöðugildi á leikskólum Reykjavíkurborgar var ómannað í byrjun þessarar viku, en samkvæmt upplýsingum frá skóla- og frístundasviði borgarinnar þarf að ráða í 6 stöðugildi deildarstjóra, um 40 stöðugildi leikskólakennara á deild og um 19 stöðugildi í stuðning. 

Rætt var við leikskólastjóra Bakkaborgar í Morgunblaðinu í dag, sem hefur suma daga þurft að senda allt að 26 börn heim vegna manneklu, en þrjá starfsmenn vantar nú á Bakkaborg svo leikskólinn geti talist fullmannaður. Þá greindi Fréttablaðið frá því að senda þyrfti allt að 30 börn heim af leikskólanum Austurkór í Kópavogi þar sem starfsfólk vantar í fimm stöður.

Frétt mbl.is Þurfa að senda börnin heim

Í meðfylgjandi töflu má sjá að flesta starfsmenn í leikskóla Reykjavíkurborgar vantar til starfa í Laugardal – Háaleiti og Miðborg – Hlíðum, en mönnun virðist vera hvað best í Grafarvogi og  Kjalarnesi.

Staðan á Austurkór einsdæmi

Í svörum frá skóla- og frístundasviði segir að ráðningar standi yfir þessa dagana og tölur breytist því dag frá degi. Fyrir tveimur vikum hafi átt eftir að ráða í 75 stöðugildi í leikskólum og á þeim tíma hafi einnig einungis 22 af 64 leikskólum borgarinnar verið fullmannaðir.

„Erfitt hefur reynst að ráða í þessi störf þegar mikil eftirspurn er eftir vinnuafli á vinnumarkaði eins og nú er. Staðan er eins hjá nágrannasveitarfélögum,“ segir í svörum borgarinnar.

Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, segir hins vegar mannekluna á Austurkór vera einsdæmi og einungis sé auglýst laust starf á einum öðrum leikskóla í Kópavogsbæ þessa dagana.

Upplýsingafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar segir sömuleiðis að ágætlega gangi að manna leikskóla bæjarins. Sex störf eru nú í auglýsingu á vef Hafnarfjarðar og teljast því væntanlega 12 af 17 leikskólum bæjarins vera fullmannaðir. Þá auglýsir Garðabær þessa dagana eftir fjórum starfsmönnum fyrir tvo af 12 leikskólum sem eru í bænum.

Vantar 126 starfsmenn á frístundaheimili í Reykjavík 

Í svörum skóla- og frístundasviðs kemur einnig fram að í upphafi þessarar viku hafi vantað 126 starfsmenn í 65 stöðugildi á frístundaheimili í Reykjavík, þar sem yfirleitt er um 50% störf að ræða. Af þessum 65 stöðugildum þarf að ráða í 13 stöðugildi vegna starfs með fötluðum börnum og ungmennum.

Alls hafa borist 4.520 umsóknir um pláss fyrir börn á frístundaheimili og þar af eru 119 umsóknir vegna starfs með fötluðum börnum og ungmennum. Þegar hafa 4.048 börn verið tekin inn á frístundaheimilin, en 478 eru enn á biðlistum eftir plássi.

Hlutfallslega eru álíka mörg börn á biðlistum í hverjum borgarhluta, en þó eru nokkuð færri börn sem bíða þess að komast að á frístundarheimilum í Breiðholti og Grafarvogi miðað við aðra borgarhluta.  Líkt og með leikskólana virðist hins vegar einnig hvað flesta starfsmenn vanta á frístundaheimili í Laugadal og Háaleyti.

Tölur breytast hins vegar daglega samkvæmt upplýsingum frá borginni, þar sem ráðningar eru nú í gangi og vantaði þannig 167 starfsmenn í 90 stöðugildi á frístundaheimilum borgarinnar fyrir tveimur vikum.

mbl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert