„Það verður ekkert neðar komist“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Styrmir Kári

„Það sem hefur verið að koma í ljós um vinnubrögðin og hugarfarið og ásetninginn sem að baki liggur, sem afhjúpast auðvitað óendanlega dapurlega í þessum tölvupósti, það er þannig að maður veit ekki hvort maður á að nota orðið harmleikur eða farsi.“

Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is. Eins og greint var frá í dag sendi Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, tölvupóst fyrir mistök á blaðamann Stundarinnar í stað fulltrúa framsóknarmanna í fjárlaganefnd.

Frétt mbl.is: Var skíthrædd um að Steingrímur sæi skýrsluna

Þar kom meðal annars fram að hún væri skíthrædd um að Steingrímur sæi skýrslu um endurreisn bankakerfisins sem hún og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður nefndarinnar, kynntu fyrr í vikunni. Þar var Steingrímur borinn þungum sökum vegna fjármálaráðherratíðar hans.

„Það er augljóst að vinnubrögðin við þessa skýrslu ná engu máli á nokkurn hátt,“ segir Steingrímur. Engra rannsóknarvenja hafi verið gætt eins og að tala við málsaðila. „Hvað þá að þeir hafi notið andmælaréttar enda afhjúpar þetta sérstakan ásetning um að leyna þessu til hinstu stundar þangað til að þau gátu skellt þessum ásökunum fram.“

Þetta sé næsti bær við það að reyna að komast í aðstöðu til þess að vega að mönnum úr launsátri segir Steingrímur. „Svo við tölum bara íslensku. Það verður ekkert neðar komist. En mér finnst þetta allt orðið svo dapurlegt að ég á bara erfitt með að tjá mig um þetta. Þvílík hörmung.“

Steingrímur segir að lokum að honum kæmi ekki á óvart ef aðilar eins og forsætisnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sæu það en að ekki væri annað hægt en að fara yfir vinnubrögðin við gerð skýrslunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka