Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, óttaðist að Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns frmaboðs og fyrrverandi fjármálaráðherra, fengi í hendur skýrslu um endurreisn íslenska bankakerfisins áður en hún yrði birt opinberlega. Þetta kemur fram á fréttavef Stundarinnar. Skýrslan var lögð fram fyrr í vikunni og en þar er Steingrímur borinn þungum sökum vegna endurreisnar bankakerfisins.
Þar er vísað í tölvupóst sem Vigdís virðist hafa sent fyrir mistök til blaðamanns Stundarinnar, Jóhanns Páls Jóhannssonar, en pósturinn átti að fara á Páll Jóhann Pálsson, þingmann Framsóknarflokksins og fulltrúa í fjárlaganefnd. Þar kemur fram að Vigdís sé „skíthrædd“ um að Steingrímur fái skýrsluna í hendur en sem betur fer hafi þingið haldið trúnað. Þá segir hún það hafa verið „statement“ hjá henni og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins og varaformanni nefndarinnar, að greiða sjálf fyrir skýrsluna.
Tölvupósturinn er svohljóðandi en hann var einnig sendur á Guðlaug Þór:
„Palli minn - ég er að fara í gegnum póstinn minn og sá þá þennan póst frá þér - fyrirgefðu hvað ég svara þér seint
Sko - ég sendi ykkur skýrsluna og fylgiskjölin á sunnudaginn
Við tökum málið út á morgun - og gerum hana að þingskjali með nöfnunum okkar í meirihlutanum á
Við vorum með "statement" með því að greiða kostnaðinn sjálf - rannsóknarskýrslur Alþingis hafa hingað til kostað 500-700 milljónir
Þú varst búinn að greiða atkvæði með að vera með á henni
Því miður hljóp Oddný á sig í kvöld og dissaði íslenskunni í skýrslunni - en s.s. hún kom úr íslensku og innsláttarvillulestri s.l. mánudag (ég var skíthrædd við að SJS myndi fá hana) - en þingið hélt trúnaði
Annars hlakka ég til að hitta þig á morgun :)“
Vigdís birtir umræddan tölvupóst á Facebook-síðu sinni í kvöld í kjölfar fréttar Stundarinnar. Staðfestir hún að tölvupósturinn hafi átt að fara til Páls Jóhanns en ekki Jóhanns Páls. Hins vegar hefði Jóhann Páll sent sér spurningar og Vigdís því líklega svarað röngum pósti. Segir hún ekkert koma fram í tölvupóstinum sem hægt sé „að blása upp“.