Eldri borgarar „vel færir til vinnu“

Þórunn segir marga eldri borgara vilja vinna.
Þórunn segir marga eldri borgara vilja vinna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara, segir það jákvætt að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, hafi talað fyrir því að fá eldri borgara til kennslu í leikskólum til að vinna á mikilli manneklu. Þá segist hún helst vilja að aldursmörk á vinnumarkaðnum séu afnumin.

Vill afnema regluna um sjötíu árin

Dagur sagði á blaðamannafundi í Ráðhúsinu í dag að borgaryfirvöld vildi leggja grunn til framtíðar, með því að snúa vörn í sókn í skólamálum. Á fundinum var kynnt 10 liða aðferðaráætlun í skóla- og leikskólamálum Reykjavíkurborgar, en borgarráð samþykkti einróma á fundi sínum í morgun að veita 920 milljón króna viðbótarfjárveitingu til skóla og leikskóla í borginni.

„Það er eðlilegur hlutur að leyfa fólki að vinna eftir sjötugt. Ég vil þó ganga lengra og skoraði í dag á þá að afnema þessa reglu um sjötíu árin vegna þess að þetta er hrein og klár mismunun. Það er ekki þannig víðast hvar í heiminum að það séu settar reglur um það hvenær þú mátt vinna og hvenær ekki,“ segir Þórunn, en hún ræddi við Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ og Þorstein Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra SA, um málið í dag.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara.

Nóg af eldri borgurum sem eru fullfrískir

Erfið staða leik­skól­anna í Reykja­vík og krafa borg­ar­yf­ir­valda um frek­ari aðhald í rekstri hef­ur verið mikið til umræðu að und­an­förnu. Marg­ir þess­ara skóla glíma nú við mikla mann­eklu og hafa sum­ir þeirra neyðst til að skerða þjón­ustu, m.a. með því að senda börn heim. Var þannig 71 stöðugildi á leik­skól­um Reykja­vík­ur­borg­ar ómannað við upp­haf þess­ar­ar viku.

„Eldri borgarar í dag eru vel færir til vinnu. Það hefur orðið svo mikil breyting síðustu tíu til fimmtán árin á heilsu til að mynda, svo við styðjum þetta,“ segir Þórunn. Hún bætir við að nóg sé af eldri borgurum sem séu fullfrískir og toppmanneskjur í vinnu. „Sumir eru jafnvel svo eftirsóttir að það hefur nánast verið grátið þegar þeir hafa ætlað að hætta.“

Ekki eigi að „henda“ eldri borgurum af vinnumarkaðnum

Þórunn segir Félag eldri borgara hafa unnið að verkefni með ASÍ og SA til að leita atvinnutækifæra fyrir eldri borgara, þar sem mörgum langi að vinna einhvern hluta. „Það er auðvitað bara val fólks en þetta er þróunin sem er framundan. Fólk verður svo bara að hafa sjálft vit á því að stíga til hliðar þegar eitthvað fer að bjáta á,“ segir hún og bendir á að fjölmargir haldi áfram á vinnumarkaðnum eftir sjötugt. „Það eru um átta þúsund manns sem hafa ekki leitað til tryggingastofnunar og ekki er vitað hvort er í vinnu, en það er alveg ljóst að einhver hluti þeirra er í vinnu.“

Þá segist hún eiga erfitt með að skilja hvers vegna eldri borgurum sé „hent út“ af vinnumarkaðnum, þegar augljóst sé að það vanti fólk út í atvinnulífið. „Það er fullt af fólki sem hefur verið í hlutastarfi því það fær ekki fulla vinnu, en getur auðveldlega unnið.“

Heilinn hætti ekki að starfa um sjötugt

Þórunn bendir á forsetaframbjóðendurna í Bandaríkjunum, Hillary Clinton og Donald Trump, sem eru 68 og 70 ára. „Ef þau verða forsetar veða þau 72 eða 74 ára þegar næsta kjörtímabil byrjar og það segir enginn neitt,“ segir Þórunn.

„Auk þess er fullt af mjög fullorðnu fólki í öldungadeildinni. Heilinn okkar hættir ekkert að starfa þegar við verðum sjötug.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert