Ríkið hefur ákveðið að veita Ísleifi Friðrikssyni 6.048.870 krónur í sanngirnisbætur vegna illrar meðferðar og ofbeldis sem hann varð fyrir af hálfu starfsmanna kaþólsku kirkjunnar í Landakotsskóla.
Í Fréttatímanum kemur fram að þetta hafi verið staðfest með bréfi í gær.
Ísleifur var sá sem fyrstur rauf þögnina um ofbeldið gagnvart börnum innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Það gerði hann í nafnlausu viðtali í Fréttatímanum árið 2011. Þar lýsti hann kynferðislegu- og andlegu ofbeldi sem hann varð fyrir af hálfu séra Georges og Margrétar Müller alla skólagöngu sína í Landakotsskóla, frá 7 ára til 13 ára aldurs.
Kaþólska kirkjan hafði áður boðið honum 170 þúsund krónur vegna málsins en Ísleifur sagðist í viðtali við Kastljós á þeim tíma ekki ætla að þiggja peninginn.