Aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í skólamálum felur m.a. í sér aukafjárveitingu til leik- og grunnskóla upp á 678 milljónir króna vegna haustsins 2016. Fjármununum er ætlað að koma til móts við kostnað vegna langtímaveikinda starfsmanna, sérkennslu og skólaaksturs.
Fyrrnefndir þættir verða jafnframt rýndir vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar 2017.
Samkvæmt tillögu um aðgerðaáætlunina, sem samþykkt var í borgarráði í dag, verður fæðisgjald í leik- og grunnskólum hækkað um 100 krónur á dag frá 1. október nk.
„Munu þeir fjármunir renna óskiptir í hráefnisinnkaup í viðkomandi starfsstöðvum. Þá verður hluta af hagræðingu á starfsstöðvar vegna hráefnisinnkaupa skilað til baka, alls 45 m. kr. á árinu 2016 vegna tafa sem orðið hafa á innleiðingu útboða. Með þessu munu leikskólar hafa úr að spila 416 kr. á dag á hvert barn í stað 306 kr. Þá munu grunnskólar hafa úr að spila 336 kr. í stað 224 kr.,“ segir í tillögunni.
Framlög vegna námsgagna til skapandi starfs í leikskólum verða hækkuð úr 1.800 krónum á barn í 3.000 krónur á barn og fjárframlög til leikskóla vegna þessa hækka um 6,9 milljónir króna á haustmánuðum 2016 og á árinu 2017.
„Auknu fjármagni verði veitt til faglegs starfs í leikskólum með 24.806 þús kr. viðbótarframlögum til aukins undirbúningstíma haustið 2016. Jafnframt verða tryggðir fjármunir til aukins undirbúningstíma á leikskólum í fjárhagsáætlun 2017,“ segir í tillögunni.
Þá verður 60 milljónum króna veitt til fagþegrar stjórnunar í grunnskólum haustið 2016 og hugað að sama þætti við undirbúning fjárhagsáætlunar 2017.
Opnað verður fyrir inntöku barna sem fædd eru í mars og apríl 2015 á leikskóla borgarinnar frá og með áramótum 2017.
„Nákvæm dagsetning inntöku mun taka mið af rými og starfsmannahaldi viðkomandi leikskóla. Til þessarar aðgerðar verði tryggðar 425 m. kr. í fjárhagsáætlun 2017. Jafnframt verður ráðist í sameiginlegt átak með fagfélögum leikskólastarfsfólks um nýliðun og fjölgun leikskólakennara með það fyrir augum að gera starf á leikskólum eftirsóknarverðara.“
Samkvæmt tillögunni verður unnið að nýjum úthlutunarlíkönum fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðvar, og þá segir að leik- og grunnskólar muni ekki þurfa að mæta halla vegna 2015 á árinu 2016.
„Við undirbúning fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir að fjárveitingar til skóla- og frístundasviðs hækki vegna kjarasamningsbundinna hækkana launa sem gerðir voru í lok árs 2015. Hækkunin milli áranna 2015 og 2017 eru 3,3 milljarðar, þar af er hækkunin milli áranna 2016 og 2017 er um 1,0 milljarður kr. Þegar náðst hafa samningar um kjör grunnskólakennara við félag grunnskólakennara mun þessi upphæð hækka enn frekar,“ segir enn fremur í tillögunni.