Leikskólastjórar í Reykjavík fagna því að borgarstjórn hyggist bæta úr slæmu rekstrarumhverfi leikskólanna. Þetta kemur fram í ályktun sem leikskólastjórar í Reykjavík sendu frá sér rétt í þessu.
Eins og fjallað var um fyrr í dag samþykkti borgarráð einróma á fundi sínum í morgun að veita 920 milljóna króna viðbótarfjárveitingu til skóla og leikskóla í borginni. Fjármununum er ætlað að koma til móts við kostnað vegna langtímaveikinda starfsmanna, sérkennslu og skólaaksturs. Þá verður fæðisgjald hækkað og framlög vegna námsgagna til skapandi starfs í leikskólum hækkuð svo eitthvað sé nefnt.
„Það er von okkar að fyrirhugaðar aðgerðir séu byrjun á löngu tímabærum úrbótum í rekstri leikskóla í Reykjavík og fyrstu skref í átt að betri tíð á fyrsta skólastiginu,“ segir í ályktuninni.
Þrátt fyrir þessi fyrstu skref telja leikskólastjórarnir margt í starfsumhverfi leikskóla sem þurfi að skoða og bæta. „Það er því von okkar að borgarstjórn horfi enn lengra fram á veginn og haldi áfram á þessari braut framþróunar og endurbóta,“ segir í ályktuninni. „Að auki teljum við fagnaðarefni að sjá samstöðu leikskólastjóra í þessu máli og ánægjulegt að slík samstaða geti leitt til úrbóta af þessu tagi.“
Erfið staða leikskólanna í Reykjavík og krafa borgaryfirvalda um frekari aðhald í rekstri hefur verið mikið til umræðu að undanförnu. Margir þessara skóla glíma nú við mikla manneklu og hafa sumir þeirra neyðst til að skerða þjónustu, m.a. með því að senda börn heim. Var þannig 71 stöðugildi á leikskólum Reykjavíkurborgar ómannað við upphaf þessarar viku.
„Við erum að leggja grunn til framtíðar, með því að snúa vörn í sókn í skólamálum,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á blaðamannafundi sem haldin var í Ráðhúsinu nú eftir hádegi til að kynna 10 liða aðgerðaáætlun í skóla- og leikskólamálum Reykjavíkurborgar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja hagræðingarkröfur meirihlutans hins vegar vera „algerlega óraunhæfar“ að því er fram kemur í bókun þeirra sem lögð var fram í borgarráði í dag.