Meirihluti Samfylkingar, Bjartar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna gerði „algerlega óraunhæfar hagræðingarkröfur til leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar,“ segir í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram í borgarráði í dag.
Borgarráð samþykkti einróma á fundi sínum í morgun að veita 920 milljón króna viðbótarfjárveitingu til skóla og leikskóla í borginni. Sjálftæðismenn segja að í viðbótarframlögunum felist viðurkenning meirihlutans á því að skólakerfi borgarinnar sé „gróflega undirfjármagnað.“
Frétt mbl.is: Vilja snúa vörn í sókn í skólamálum
„Mikill tvískinnungur felst í því að halda því fram að um ný framlög til skólamála sé að ræða í þessu sambandi því að langstærstum hluta er verið að viðurkenna þann hallarekstur, sem orðinn er að veruleika vegna óraunhæfrar fjárhagsáætlunar, og Reykjavíkurborg hefur ekki tök á að víkja sér undan, t.d. vegna sérkennslu, langtímaveikinda, skólaaksturs og skólamáltíða,“ segir m.a. í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
„Við vinnslu fjárhagsáætlunar 2016 bentu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og skólastjórar á að ýmsar niðurskurðartillögur meirihlutans væru óraunhæfar. Á yfirstandandi ári hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað fylgt þessum ábendingum eftir í umræðum, sem efnt hefur verið til í borgarstjórn, að frumkvæði þeirra. Til dæmis myndi niðurskurður á fæðisgjaldi leikskóla og grunnskóla óhjákvæmilega bitna á gæðum skólamáltíða. Það hefur því miður gerst. Komið hefur í ljós að hluta af fæðisgjaldi leikskólanna er nú ráðstafað til annars en matarinnkaupa og segir formaður Félags leikskólakennara að þar með hafi botninum verið náð. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um málið frá kennurum, skólastjórnendum og öðrum starfsmönnum brást meirihlutinn ekki við þessari alvarlegu stöðu fyrr en málið hafði hlotið mikla og endurtekna umfjöllun í fjölmiðlum.“
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja það vekja athygli að meirihlutinn geri ekki ráð fyrir aðgerðum í því skyni að styrkja rekstur frístundaheimila borgarinnar þrátt fyrir að niðurskurður þar hafi jafnvel verið hlutfallslega meiri en í leikskólum og grunnskólum á undanförnum árum.