Jóhannes Karl Sveinsson, hæstaréttarlögmaður sem kom að samningum við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna, segir ávirðingar í skýrslu fjárlaganefndar Alþingis svívirðilegar. Þetta kom fram í tíufréttum RÚV.
Sagði hann að embættismenn og sérfræðingar væru nánast sakaðir um landráð, án þess að fá tækifæri til að svara ásökunum. Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, baðst fyrr í kvöld afsökunar á orðalagi í skýrslu hans og Vigdísar Hauksdóttur, formanns nefndarinnar, um einkavæðingu bankanna hina síðari.
Jóhannes Karl sagði í samtali við RÚV að þungt hljóð væri í hópnum sem kom að samningagerðinni. „Mér fannst þetta algjör svívirða og sér í lagi vegna þess að það var ekki talað við einn einasta mann sem að þessu hafði komið og hefði getað útskýrt málið fyrir þeim sem sömdu þessa skýrslu,“ sagði hann.
Á Facebook-síðu sinni sagði Guðlaugur Þór í kvöld að honum hefðu borist ábendingar um að orðalag í skýrslunni sé þannig að hægt sé að skilja það sem árásir eða gagnrýni á embættismenn og sérfræðinga. Hann segir að það hafi ekki verið ætlun meirihluta fjárlaganefndar að vega að starfsheiðri einstaklinga.
„Það er rétt og skylt að biðjast velvirðingar á slíkum mistökum. Í þessu ljósi verður orðalag skýrslunnar endurskoðað. Gildishlaðin orð eða annað sem valdið getur misskilningi fjarlægt þannig að efnisleg umræða fari fram,“ skrifar hann.