Vantar hundruð leikskólakennara til starfa

Lögum samkvæmt eiga um 2/3 hlutar starfsmanna leikskóla að vera …
Lögum samkvæmt eiga um 2/3 hlutar starfsmanna leikskóla að vera leikskólakennarar. Hlutfallið er þó nær því að vera 30%. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Það vantar hundruð leikskólakennara til starfa svo lög um leikskóla séu uppfyllt,“ segir Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda leikskóla. „Lög um leikskóla gera ráð fyrir að tveir þriðju hlutar þeirra sem annast uppeldi og menntun barna séu leikskólakennarar. Fyrir fáeinum árum vantaði 1.300 leikskólakennara til starfa og ég held að staðan hafi lítið breyst síðan þá.“

Staðan er hins vegar sú að ekki eru nema um 30% starfsmanna leikskólanna að meðaltali menntaðir leikskólakennarar. Hjá Reykjavíkurborg var þetta hlutfall á árabilinu 2012-2015 um 35-37% fyrir þá leikskóla sem borgin rekur, samkvæmt upplýsingum frá Skóla- og frístundasviði. Athygli vekur að staðan var enn verri hjá sjálfstætt starfandi leikskólunum í borginni, en þar var hlutfalllið 16-21%.

Frétt mbl.is: Verst virðist staðan í Reykjavík

Frétt mbl.is: Tæpur helmingur leikskóla fullmannaður

Frétt mbl.is: Þurfa að senda börnin heim

Fyrir vikið reiða leikskólar sig á annað starfsfólk til að halda starfinu gangandi. „Okkar góði hópur sem að við stólum á þegar ekki  eru nema 30% fagmanna í leikskólunum eru unga fólkið,“ segir Ingibjörg.

„Hingað til hafa þetta verið stúdentar sem hafa tekið sér hlé frá námi, en núna er meira af gylliboðum í gangi. Við þekkjum þetta alveg frá fyrri uppgangsárum því þeim fylgir jafnan mönnunarvandi, á sama hátt og kreppan kom stöðugleika á í starfsmannahaldi leikskólanna.“

Ástæða þess að Reykjavíkurborg gengur verr að að manna leikskóla sína en nágrannasveitarfélögunum, segir Ingibjörg því eingöngu vera bundið við stærð sveitarfélagsins.

Leikskólunum fjölgar hraðar en leikskólakennurunum

Ingibjörg segir um 30 ára þróun liggja að baki fækkun menntaðra starfsmanna leikskóla. Jafnvel á þeim tímum þegar þokkaleg aðsókn hafi verið að náminu, þá hafi leikskólunum fjölgað hraðar en þeim leikskólakennurum sem útskrifuðust.

„Þegar leikskólafræðin voru síðan gerð að fimm ára háskólanámi árið 2008, sem er fullkomlega eðlileg krafa, þá fól breytingin hins vegar ekki aðeins í sér að það útskrifuðust ekki leikskólakennarar í einhver ár, heldur útskrifuðust heldur ekki leikskólakennarar af því að fólki óx námið í augum,“ segir hún.

 „Núna er staðan sú að leikskólakennarar eru að eldast, þannig að þeir leikskólakennarar sem útskrifast gera lítið annað en  að jafna fjölda þeirra sem hætta sökum aldurs.“

Aukið atvinnuleysi meðal háskólamenntaðra vekur leikskólastjórnendum þó von um að hægt verði að fjölga menntuðu starfsfólki á næstu árum. „Núna bjóða háskólarnir upp á meistarastig í leik- og grunnskólafræðum fyrir þá sem hafa aðra BA eða BS gráðu og þannig getur fólk útskrifast með leyfisbréf fyrir kennslu á mun skemmri tíma,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda leikskóla, segir leikskólastjórnendur þekkja vel …
Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda leikskóla, segir leikskólastjórnendur þekkja vel að erfiðara sé að fá fólk til starfa á uppgangstímum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert