Erfið staða leikskólanna í Reykjavík og krafa borgaryfirvalda um frekari aðhald í rekstri hefur verið mikið til umræðu að undanförnu. Margir þessara skóla glíma nú við mikla manneklu og hafa sumir þeirra neyðst til að skerða þjónustu, m.a. með því að senda börn heim. Var þannig 71 stöðugildi á leikskólum Reykjavíkurborgar ómannað við upphaf þessarar viku.
Frétt mbl.is:Þurfa að senda börnin heim
Morgunblaðið hafði í gær samband við nokkra leikskólastjóra á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri til að fá upplýsingar um stöðuna. Einn þeirra er Guðný Anna Þóreyjardóttir, leikskólastjóri á Austurkór í Kópavogi. Hún segist glíma við mikla manneklu og mun það hafa talsverð áhrif á þjónustu.
„Vegna m.a. langveikinda starfsfólks vantar okkur fimm starfsmenn í fullu starfi og tvo í hlutastarfi svo kalla megi leikskólann fullmannaðan,“ segir Guðný Anna og bætir við að frá og með deginum í dag muni starfsfólk á hverjum degi þurfa að senda börn heim af öllum deildum. Deildir leikskólans eru sex talsins og er misjafnt hversu mörg börn fara heim hvern tiltekinn dag, en mest fer það upp í 30 börn.
„Okkur þykir að sjálfsögðu mjög miður að þurfa að grípa til þessara aðgerða, en þetta er algjört neyðarúrræði,“ segir Guðný Anna. Spurð hvort leikskólanum hafi borist umsóknir um auglýst störf svarar hún: „Við erum búin að bjóða þremur umsækjendum vinnu og erum með aðrar umsóknir í vinnslu. Við vonum því að þetta vandamál leysist sem fyrst.“
Sigríður Björg Tómasdóttir, almannatengill Kópavogsbæjar, segir stöðuna á Austurkór vera einsdæmi í sveitarfélaginu. „Við erum, fyrir utan þennan eina leikskóla, í góðum málum,“ segir hún.
Langflestir leikskólar í Hafnarfirði teljast nú fullmannaðir, en samkvæmt upplýsingum þaðan eru sex störf auglýst á vef sveitarfélagsins um þessar mundir.
Oddfríður Jónsdóttir, leikskólastjóri á Arnarbergi í Hafnarfirði, segist ekki glíma við neina manneklu í sínum skóla. „Ég vísa frekar frá en hitt,“ segir Oddfríður.
Í Garðabæ er auglýst eftir fjórum starfsmönnum fyrir tvo af þeim 12 leikskólum sem starfandi eru í sveitarfélaginu. „Það eru engin vandræði hjá mér, en ég var svo heppin að ná að fullmanna allar stöður,“ segir Marta Sigurðardóttir, leikskólastjóri á Kirkjubóli í Garðabæ, en þar vinna alls 17 manns. Aðspurð segir hún þó hlutfall fagmenntaðra starfsmanna hafa lækkað nokkuð að undanförnu.
„Ég held að hlutfallið sé komið eilítið undir 50%,“ segir Marta og heldur áfram: „Garðabær hefur alltaf verið vel rekið sveitarfélag, en okkur finnst þó að það mætti gefa aðeins betur í og veita okkur meira fjármagn. Eftir hrun 2008 var skorið mikið niður og það hefur ekki skilað sér til baka.“
Gunnhildur María Sæmundsdóttir, skólafulltrúi Mosfellsbæjar, segir manneklu á leikskólum sveitarfélagsins eingöngu þegar veikindi koma upp meðal starfsmanna. „Þá tekst okkur ekki alltaf að leysa af allar stöður, en leikskólarnir eru fullmannaðir og okkur vantar þannig lagað ekki fólk,“ segir hún.
Spurð hvort hún viti dæmi þess að leikskóli í Mosfellsbæ hafi þurft að senda börn heim líkt og nú gerist í Reykjavík og í einum skóla í Kópavogi svarar Gunnhildur María: „Mig rekur ekki minni til þess.“