Bad Breed í Garðabæ

Devils Choice heitir nú Bad Breed, en hér gefur að …
Devils Choice heitir nú Bad Breed, en hér gefur að líta gamla merkið á húsnæðinu í Garðabæ.

Vélhjólaklúbburinn Devils Choice, sem áður hét Hog Riders, hefur tekið upp nýtt nafn á Íslandi og heitir nú Bad Breed. Klúbburinn, sem er enn með aðsetur í Skeiðarási í Garðabæ, er með tengsl við samtökin Bandidos sem hafa margsinnis komist í kast við lögin vegna skipulagðrar brotastarfsemi.

Stundin greindi frá því í dag að merki Bad Breed væri nú að finna á húsnæðinu, en Bad Breed-samtökin eiga rætur að rekja til Svíþjóðar og eru nýleg.

Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í rannsóknardeild skipulagðrar brotastarfsemi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is, að lögreglan fylgist almennt með vélhjólaklúbbum á Íslandi sem eru með tengsl við erlend samtök á borð við Vítisengla og Bandidos. 

„Almennt séð þá erum við að fylgjast með ákveðnum mótorhjólaklúbbum; það eru ekkert allir mótorhjólaklúbbar undir þetta settir,“ tekur Runólfur fram. Þetta séu nokkrir fámennir hópar, en einnig eru til stuðnings- og undirklúbbar, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fylgist með í samstarfi við ríkislögreglustjóra og lögregluna á Suðurnesjum.

Árið 2011 samþykkti þáverandi ríkisstjórn að veita tæpum 50 milljónum króna til tólf mánaða átaks lög­reglunn­ar til að vinna gegn skipu­lagðri brot­a­starf­semi á Íslandi. Þá hafði lögreglan vís­bend­ing­ar um að al­var­leg skipu­lögð glæp­a­starf­semi væri að fær­ast í vöxt hér­lend­is og að alþjóðleg­ir glæpa­hring­ir væru að skjóta hér rót­um. Aðspurður segir Runólfur að það átak hafi gefið góða raun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka