Bylting í samanburði við Kópavogsfangelsið

Konurnar munu hafa aðgang að þremur útivistarsvæðum í fangelsinu á …
Konurnar munu hafa aðgang að þremur útivistarsvæðum í fangelsinu á Hólmsheiðinni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir þær aðstæður sem bíða kvennanna í fangelsinu á Hólmsheiði vera allt aðrar og betri en þær sem þær búa við í dag, jafnvel þó að fangelsið á Akureyri sé með nýrri fangelsum á landinu og aðbúnaður þar því frekar góður.

„Síðan er þetta algjör bylting í samanburði við Kópavogsfangelsið,“ segir hann og nefnir sem dæmi að til að mynda verði salerni og sturta inni í hverjum klefa, en slík aðstaða hafi ekki verið í Kópavogsfangelsinu.

Frétt mbl.is: Kvenfangar fyrstir á Hólmsheiðina

„Þá er aðgengi að heimsóknaríbúð fyrir konurnar til að fá þá heimsóknir til lengri tíma frá börnum sínum. Öll sameiginleg aðstaða er sömuleiðis góð, bæði líkamsræktaraðstaða og bókasafn, sem og námsaðstaða og góð vinnuaðstaða, en ekkert af þessu var til staðar í Kópavogsfangelsinu.“

Hafa aðgengi að þremur útivistarsvæðum

Spurður hvort aðstæður kvennanna muni versna á einhvern hátt við flutninginn þar sem Hólmsheiðin teljist hágæslufangelsi, segir hann Fangelsisstofnun ekki gera þann skilgreiningarmun. Fangelsi séu bara flokkuð sem opin eða lokuð, líkt og Hólmsheiðin.

„Konurnar vistast þar eins lengi og telst nauðsynlegt út frá öryggissjónarmiðum, en um leið og þær teljast hæfar til að vistast í opnum fangelsum þá flytjast þær í opnu fangelsin sem eru þá Kvíabryggja eða Sogn,“ segir hann

Aðgengi kvennanna til náms, netaðgengis og annars þess háttar verði hins vegar með svipuðum hætti á Hólmsheiðinni og það er nú á Akureyri.

„Það verður þó rýmra um þær,“ bætir hann við. „Konurnar hafa t.a.m. aðgengi að þremur útivistarsvæðum í nýja fangelsinu en aðeins einu litlu í fangelsinu á Akureyri, auk þess sem við munum geta vistað konurnar án þess að þær þurfi að eiga samskipti við karlfanga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert