Hófst með símtali frá svissneskri konu

Maðurinn var handtekinn 22. júlí í fyrra.
Maðurinn var handtekinn 22. júlí í fyrra.

Mál nígeríska hælisleitandans sem grunaður var um að hafa vitandi vits smitað íslenskar konur af HIV hófst með símtali frá svissneskri konu. Málið vakti mikla athygli á Íslandi og ýmsar áleitnar spurningar um HIV og sóttvarnir. Í gær bárust fregnir af því að héraðssaksóknari hefði ákveðið að fella málið niður þar sem ekki þótti hægt að sanna að maðurinn hefði vitað að hann væri HIV smitaður.

Ekki hefur náðst í lögmann mannsins og er mbl.is hvorki kunnugt um örlög hælisleitandans né hvort framhald verður á málinu af hans hálfu.

Frétt mbl.is: HIV-málið fellt niður

Tvær konur smitaðar, á annar tugur í próf

mbl.is sagði fyrst frá málinu 23. júlí 2015. Þá var upplýst að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sóttvarnalæknir rannsökuðu mál karlmanns af erlendum uppruna sem var grunaður um að smita ungar konur af alvarlegum sjúkdómi. Fram kom að rannsóknin snéri m.a. að því hvort fleiri ungar konur kynnu að hafa haft samneyti við manninn og hvor þær væru smitaðar. Vegna alvarleika málsins yrði farið fram á gæsluvarðhald yfir manninum.

Seinna sama dag staðfesti Haraldur Briem, þáverandi sóttvarnalæknir, að sjúkdómurinn sem um ræddi væri HIV. Haraldur sagði unnið að því að komast að því hversu umfangsmikið málið væri, en það væri gert með svokallaðri smitrakningu. Sagt var frá því í frétt mbl.is að málið hefði komið upp á yfirborðið þegar fyrsta greiningin hefði legið ljós fyrir en Haraldur gat á þessum tíma ekki staðfest um hversu margar konur væri að ræða.

Þennan sama dag, 23. júlí, var sá grunaði dæmdur í gæsluvarðhald til 20. ágúst, á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þá hermdu heimildir mbl.is að um tíu konur væru taldar tengjast málinu. Vitnað var í frétt RÚV þar sem maðurinn var sagður nígerískur hælisleitandi sem kom hingað til lands í ágúst árið á undan.

Haraldur Briem, þáverandi sóttvarnalæknir.
Haraldur Briem, þáverandi sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Strax virðast hafa vaknað vangaveltur um hvort maðurinn hefði smitað konurnar vitandi vits en ekki lá ljóst fyrir hvort hann vissi að hann væri smitaður. Daginn eftir að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald hafði Morgunblaðið eftir heimildum að tvær konur sem hefðu átt samneyti við manninn hefðu greinst með smit og á annar tugur kvenna farið í greiningu. Haft var eftir Guðnýju Sigmundsdóttur, settum sóttvarnalækni, að greina mætti HIV-smit á einum sólahring ef mikið lægi við.

Úrskurðurinn ekki birtur

Sama dag, 24. júlí, hafði mbl.is eftir Guðmundínu Ragnarsdóttur, þáverandi lögmanni mannsins, að hann hefði ekki vitað að hann væri smitaður. Maðurinn hafði þá áfrýjað gæsluvarðhaldsúrskurðinum. Guðmundína sagðist ekki getað staðfest hvort maðurinn hefði gengist undir læknisskoðun sem hælisleitendur eru látnir gangast undir samkvæmt reglum sóttvarnalæknis, en í þeirri skoðun er m.a. skimað eftir HIV. Lögmaðurinn sagði lögregluna telja sig hafa rökstuddan grun um brot á ákveðnum lagagreinum en vildi ekki ræða málið að öðru leyti.

Rætt var við Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, sem sagði að sér væri ekki kunnugt um að hælisleitendur neituðu að gangast undir heilsufarsskoðun en það væri þó ekki til marks um að slíkt hefði ekki gerst. Hún sagði að að öllu jöfnu liðu um 1-5 dagar frá því að hælisleitandi gæfi sig fram og þar til hann væri boðaður í skoðun. Útlendingastofnun fengi ekki tilkynningu ef viðkomandi mætti ekki.

Hinn 26. júlí hafði mbl.is eftir Haraldi Briem að hælisleitandinn nígeríski hefði ekki skilað læknisvottorði en það gæti tekið tíma að ganga frá slíku plaggi. „Það eru ekki nein­ar ná­kvæm­ar dag­setn­ing­ar á því hvenær menn eiga að vera komn­ir í skoðun og þess hátt­ar,“ sagði Har­ald­ur enda hefðu heil­brigðis­yf­ir­völd ekki tök á því að taka fólk í lækn­is­skoðun þegar í stað. Sóttvarnalæknir vildi ekki tjá sig um fjölda smitaðra né framgang rannsóknarinnar.

Tveimur dögum síðar, 28. júlí, staðfesti Hæstiréttur gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms en þær upplýsingar fengust hjá dómstólnum að dómurinn yrði ekki birtur vegna rannsóknarhagsmuna og vegna þess að málið þætti afar viðkvæmt. Það var lögregla sem fór fram á að dómurinn yrði ekki birtur. Fram kom í frétt RÚV sama dag að lögregla teldi sig hafa rökstuddan grun fyrir því að maðurinn hefði vitað að hann væri með HIV.

Mætti í læknisskoðun en ekki blóðrannsókn

Þegar mbl.is ræddi við Harald Briem 29. júlí fengust þær upplýsingar að hælisleitendum væri í raun ekki gert að gangast undir læknisskoðun né skila læknisvottorði en aðrar reglur giltu um þá sem sóttu um dvalarleyfi hér á landi. Þeir þyrftu að gangast undir heilbrigðisskoðun innan tveggja vikna frá komu sinni til landsins. Sagðist Haraldur gjarnan vilja breyta þessu verklagi.

„Við vilj­um að það sé tekið upp og skoðað. Við vilj­um sjá hvort við get­um staðið bet­ur að þessu og hvað hægt sé að gera til að svona ger­ist ekki. Það eru ólík­ar for­send­ur sem liggja þarna að baki og þetta er til­tölu­lega flókið mál,” sagði hann.

Hinn 5. ágúst kom í ljós að grunaði hafði farið í læknisrannsókn en ekki mætt í blóðprufurannsókn. mbl.is ræddi þá við Þórólf Guðnason, staðgengil sóttvarnalæknis, sem sagði að allir hælisleitendur ættu að fara í sams konar læknisrannsókn og þeir sem sóttu um dvalarleyfi.

Maðurinn mætti í heilsufarsrannsókn en ekki í blóðrannsókn.
Maðurinn mætti í heilsufarsrannsókn en ekki í blóðrannsókn. AFP

„Í verklag­inu kom upp ákveðinn veik­leiki sem leitt get­ur til þess að menn mæti ekki í blóðrann­sókn­ir þótt þeir hafi mætt í lækn­is­rann­sókn­ir. Og það er það sem við erum að reyna að gera núna - að sam­ræma verklagið þannig að þetta verði eins gott og mögu­legt er,“ sagði Þórólf­ur.

Hann sagði heilbrigðisyfirvöld ekki búa yfir úrræðum til að fá einstaklinga í rannsókn nema rökstuddur grunur væri um að viðkomandi væri haldinn einhverjum sjúkdómi. „Í lög­um eru aðgerðir sem menn geta gripið til, en það er ekki al­veg ljóst að hægt sé að grípa til þeirra nema að menn hafi rök­studd­an grun um sjúk­dóm.“

Þórólfur staðfesti að enn væri unnið að því að rekja möguleg smit en sagði ekki tímabært að gefa upp hvort fleiri hefðu smitast.

Maðurinn var látinn laus úr gæsluvarðhaldi 19. ágúst en úrskurðaður í fjögurra vikna farbann af héraðsdómara. mbl.is hafði eftir Friðriki Smára Björgvinssyni, yfirlögregluþjón og yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að ekki hefði þótt ástæða til að fara fram á lengra gæsluvarðhald. Rannsókn málsins gengi ágætlega. Aftur var rætt við Friðrik Smára 8. september en þá sagði hann beðið eftir gögnum að utan.

Hinn 15. nóvember sagði RÚV frá því að farbann yfir hælisleitandanum grunaða yrði ekki framlengt en þá fékkst ekki gefið upp hvort rannsókn málsins væri lokið.

Sótti um hæli á Ítalíu og í Sviss

Hæstaréttardómurinn þar sem gæsluvarðhald yfir manninum var staðfest var birtur þremur mánuðum eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp. Í meðfylgjandi úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur kom m.a. fram að maðurinn hefði komið til landsins í september 2014 og óskað eftir hæli á lögreglustöðinni Hverfisgötu 9. sama mánaðar.

Skýrsla var tekinn af manninum 11. september og þar sagðist hann hafa dvalið í Noregi í tvo mánuði áður en hann kom til Íslands. Þar framvísaði hann fölsuðu vegabréfi. Þá kom fram í viðtali hjá Útlendingastofnun 22. september að hann hefði bæði sótt um hæli á Ítalíu og í Sviss, en rannsókn lögreglu staðfesti þetta. Var hann á Ítalíu í maí 2011 og í Sviss í ágúst 2012, en fór á flakk eftir að hafa verið hafnað, að eigin sögn.

Hælisumsókn mannsins var hafnað hér á landi 4. mars 2015 en hann kærði ákvörðunina og var mál hans í ferli hjá kærunefnd útlendingamála þegar hann var hnepptur í gæsluvarðhald.

Maðurinn var sendur í læknisskoðun á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja við komuna til landsins en mætti hvorki í blóð- né berklapróf. Í nóvember 2014 kom hann á heilbrigðisstofnunina og sagðist smitaður af klamidíu vegna stúlku sem hann hafði átt samneyti við hér á landi en þegar héraðsdómur kvað upp gæsluvarðhaldsúrskurðinn 23. júlí 2015 var ekki vitað hver sú stúlka var. Maðurinn fékk lyfjaávísun vegna sjúkdómsins en leysti hana ekki út. Þá mætti hann hvorki í blóðprufu vegna þessa né endurkomu.

Smitið fimm til tíu ára gamalt

Í úrskurði héraðsdóms má lesa hvernig málið gegn manninum hófst. Þar segir að þremur vikum áður en úrskurðurinn var kveðinn upp hringdi svissnesk kona í konu A, sem maðurinn hafði verið með í um tvo mánuði. Svissneska konan sagðist hafa átt í sambandi við manninn en hann hefði ásakað sig um að hafa smitað sig af HIV. Í kjölfar símtalsins fór A í próf og reyndist smituð af HIV og sömuleiðis kona B, sem einnig hafði átt í sambandi við manninn. Í kjölfar niðurstöðu læknisrannsóknar A var maðurinn boðaður í smitsjúkdómapróf á Landspítala, þar sem staðfest var að hann væri með annað stig sjúkdómsins.

„Samkvæmt læknabréfi, dags. 20. júlí 2015, sé áætlað að smit kærða sé um fimm til sjö ára eða jafnvel tíu ára gamalt. Jafnframt komi þar fram að ákærði hafi að öllum líkindum átt samneyti við fleiri konur hér á landi,“ segir í úrskurði héraðsdóms.

Lögreglan hafði manninn grunaðan um að hafa smitað konurnar vitandi …
Lögreglan hafði manninn grunaðan um að hafa smitað konurnar vitandi að hann væri með HIV.

Maðurinn var handtekinn 22. júlí og yfirheyrður. Hann neitaði sök og sagðist ekki hafa vitað af smitinu fyrr en nýverið. Erfitt reyndist að fá uppgefið hversu mörgum íslenskum konum hann hefði sængað hjá frá því hann kom til landsins. Nafngreindi maðurinn A og B en sagði að konurnar hefðu verið fleiri.

Lögregla taldi kærða liggja undir rökstuddum grun um að hafa af ásetningi gerst brotlegur við ákvæði 7. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, þar sem fjallað eru um skyldur einstaklinga, og 4. mgr. 220. gr. hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem segir að fangelsi allt að fjórum árum skuli sá sæta „sem í ábataskyni, af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt stofnar lífi eða heilsu annarra í augljósan háska.“

Það var og mat lögreglu „að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins gangi hann laus, auk þess sem hætta sé á að kærði reyni að komast úr landi eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Miðað við þá háttsemi sem kærði sé grunaður um að hafa viðhaft hingað til, þ.e. að stunda óvarin kynmök við konur vitandi að hann sé haldinn svo alvarlegum smitsjúkdómi, sé það jafnframt mat lögreglu að hætta sé á að kærði viðhaldi sömu hegðun verði hann látinn laus,“ segir í úrskurðinum.

Líkt og fyrr segir hefur héraðssaksóknari ákveðið að fella málið niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert