Saurgerlar fundust í neysluvatni á Flateyri við reglubundið eftirlit Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. Var þetta staðfest í gær og Ísafjarðarbæ formlega tilkynnt um málið í dag. Þetta kemur fram í frétt Bæjarins besta í morgun.
Bakteríurnar sem fundust eru af tegundum E.coli og kólí. Anton Helgason framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða segir ástæðu þess að gerlarnir hafi komist í neysluvatn Flateyringa sennilega fólgna í leysingunum sem verið hafa undanfarið og einnig voru perur farnar í tæki sem geislar allt neysluvatn Flateyringa. Tækið virkar þannig að það sendir stöðugt frá sér útfjólublátt ljós og spornar við skiptingu og vexti óæskilegra baktería. Ekki er vitað fyrir víst hvenær tækið hætti að virka, en það var í lagi við síðasta eftirlit í júní. Anton segir gæði neysluvatns fyrir þéttbýliskjarna svæðisins almennt góð og sjaldgæft að upp komi tilfelli sem þetta, þó hafi svipað dæmi komið upp í Bolungavík í sumar.
Starfsmenn Ísafjarðarbæjar vinna nú að því að skipta um perur og hreinsa búnaðinn og má búast við að framkvæmdum ljúki um hádegið. Fram að því er ráðlagt að sjóða neysluvatn og fyrir þá sem viðkvæmir eru fyrir er ágætt að halda því áfram fyrst í stað, en er ljósið fer að virka ætti að vera komið í veg fyrir vandann.