Spennan magnast í Norðausturkjördæmi

Kjördæmisþing Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi um helgina getur orðið vís­bend­ing um …
Kjördæmisþing Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi um helgina getur orðið vís­bend­ing um stöðu Sig­mund­ar Davíðs inn­an flokks­ins og mögu­leika hans í for­manns­kjör­inu á kom­andi flokksþingi. mbl.is/Styrmir Kári

„Hér eru allir í góðum fíling eins og maður segir, skráning þingfulltrúa hófst klukkan tíu þannig að fólk er að byrja að mæta,“ segir Eyþór Elíasson, formaður kjörstjórnar framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi, sem er staddur í félagsheimilinu Skjólbrekku í Mývatnssveit. Þar fer fram tvöfalt kjördæmisþing Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi um helgina. Kjörstjórnin hefur umsjón með þinginu.

Kosning frambjóðenda er eini dagskrárliður þingsins í dag. Um 370 eru á kjörskrá og kosið er um fimm efstu sætin á framboðslistanum. 

Eft­ir setn­ingu þings­ins klukkan 11 verður byrjað að kjósa um fyrsta sæti list­ans, en fram­bjóðend­ur fá að halda smá tölu fyrst. Kosið er um hvert sæti í sérstakri umferð. „Það er kosið sér í hvert sæti. Upp úr hádegi reikna ég með að úrslitt úr fyrstu umferð verði kynnt, áður en farið verður í næstu umferð,“ segir Eyþór.

Sigmundi spáð 1. sæti

Sjö eru í framboði. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, alþingismaður og fyrrverandi forsætisráðherra, býður sig fram í 1. sæti og það gerir Höskuldur Þórhallsson alþingismaður sömuleiðis. Þórunn Egilsdóttir alþingismaður býður sig fram í í 1.-2. sæti, Líneik Anna Sævarsdóttir alþingismaður í 1.-3. sæti, Hjálmar Bogi Hafliðason varaþingmaður í 2.-4. sæti, Sigfús Karlsson framkvæmdastjóri í 3. sæti og Margrét Jónsdóttir strætóbílstjóri í 4.-5. sæti.

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að flestir viðmæl­end­ur blaðsins úr röðum fram­sókn­ar­manna séu þeirr­ar skoðunar að Sig­mund­ur Davíð nái kjöri í fyrsta sætið í fyrstu um­ferð kosn­ing­anna. Þeir eru sömu­leiðis þeirr­ar skoðunar að Hösk­uld­ur muni lýsa því yfir, verði Sig­mund­ur Davíð kjör­inn í fyrsta sætið, að hann muni ekki þiggja annað sætið á list­an­um, sem er það sæti sem hann skip­ar nú.

Stefán Bogi Sveinsson, oddviti framsóknarmanna á Fljótsdalshéraði, lýsti yfir stuðningi við Þórunni Egilsdóttur á Facebook-síðu sinni í gær. Í færslu sinni segir hann að með hana í forystusæti í kjördæminu kvíði hann sannarlega ekki kosningunum í haust.

Kjördæmisþingið stendur yfir alla helgina og á morgun fer fram reglubundið kjördæmaþing. „Þar verður listinn væntanlega endanlega afgreiddur í heild sinni, ef vel gengur,“ segir Eyþór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert