„Ég er geðveikt ánægð með mig,“ segir Elísabet Margeirsdóttir, sem aðfararnótt föstudagsins lauk Tor Des Geants-fjallahlaupinu sem fer fram í Ölpunum. Um er að ræða 330 km leið þar sem hækkunin er samanlögð 25.000 metrar hið minnsta. Elísabet lenti í 8. sæti í kvennaflokki, en alls hófu 90 konur þátttöku.
Líklega er um lengsta hlaup sem Íslendingur hefur lokið að ræða, en Elísabet var 113 klukkustundir, 6 mínútur og 26 sekúndur í mark. Hún lagði af stað klukkan 10 að staðartíma á sunnudagsmorgun, og kom í mark rúmlega þrjú um nóttina. Annar Íslendingur, Stefán Bragi Bjarnason, hóf einnig keppni en tókst ekki að klára innan 150 klukkustunda tímarammans.
Elísabet, sem hefur tekið þátt í utanvegahlaupum frá árinu 2011, fékk boð í Tor Des Geants í fyrra en tók sér góðan tíma til að ákveða hvort hún ætlaði að taka þátt. „Ég hef alltaf vitað af þessu hlaupi og þetta hefur verið eitthvað sem mig hefur hugsanlega langað að reyna við en svo ákvað ég bara að láta vaða fyrst það var búið að taka frá pláss fyrir mig,“ segir hún.
Mikið er lagt upp úr því að hlaupið sé alþjóðlegt, og hlauparar frá yfir 70 þjóðum tóku þátt. „Konur voru í algjörum minnihluta svo það að vera kona, og þá sérstaklega frá Íslandi, var mjög gaman. Maður fékk mikla athygli og hvatningu út á það sem hjálpaði mikið.“
Spurð um undirbúning segist Elísabet hafa kynnt sér svæðið og hlaupaleiðina vel ásamt því að hafa talað við fólk sem hefur tekiðþátt í keppninni áður. „Svo er maður með reynslu í gegnum árin sem skilar sér í þessu,“ segir Elísabet og heldur áfram: „En ég fór fyrir þremur vikum hálfa leiðina á fjórum dögum svo ég vissi hvernig ég ætti að fara í gegnum fyrri hlutann til að lifa seinni hlutann af.“
Elísabet segir að brekkurnar á hlaupaleiðinni komist nálægt því á köflum að vera fjallaklifur, en þar sem um hlaupaleið er að ræða eru keppendur í hlaupaskóm en ekki fjallgöngubúnaði. „Þetta eru lengstu og bröttustu brekkur sem ég hef kynnst. Tuttugu og sex sinnum hækkarðu þig um 1.000-1.600 metra í einu og svo niður aftur. Tuttugu og fimm þúsund metrar upp er ekkert svo erfitt ef þú kannt það en að fara niður það drepur mann. Niðurhlaupin eru það erfiðasta við þetta.“
En nú er þetta eitthvað sem flestir myndu telja ógjörning, hvernig ákveður fólk að taka þátt í svona keppni?„Þetta er mitt áhugamál og mér finnst algjörlega þess virði að leggja allt í þetta án þess að taka þessu of alvarlega. Ég er fyrst og fremst að gera þetta vegna þess að mér finnst þetta skemmtilegt,“ segir Elísabet. „Þetta var algjörlega magnað.“
Hlaupið var yfir 26 fjallaskörð, og það hæsta var 3.300 metra hátt. Þá eru hlaupnar frægar gönguleiðir sem umlykja Alpadalinn í ítölsku Ölpunum. „Maður fer framhjá hæstu tindum sem tilheyra Ölpunum eins og Mont Blanc svo útsýnið og náttúran sem maður er að fara í gegnum er mögnuð allan tímann.“
Þá fara hlauparar í gegnum lítil þorp og geta stoppað þar á hjálparstöðvum og fengið aðstoð. Auk þess eru drykkjarstöðvar í skálum á leiðinni þar sem hlauparar geta lagt sig og fengið sér að borða. Hjá Elísabetu voru stoppin allt frá því að vera mjög stutt stopp þar sem hún hljóp nánast í gegn og upp í þrjá klukkutíma, en lengsta stoppið tók hún þegar hún var hálfnuð með leiðina. „Þá var ég frekar buguð og ekki búin að sofa neitt svo ég svaf í klukkutíma, fór í sturtu og borðaði mjög vel,“ segir hún. „Ég fór út af stöðinni þegar sólin var að koma upp og var eins og ný manneskja.“
Elísabet svaf aldrei meira en klukkustund á stöðvunum, og alls um 7 tíma í heildina á þessum tæplega 5 sólarhringum. „Ég hefði kannski þurft að sofa meira,“ segir hún og hlær en bætir við að stutt tuttugu mínútna stopp þar sem hún setti fæturna upp í loft hafi gert gæfumun. „Í stað þess að sofa samfleytt í þrjá tíma eins og sumir gerðu fann ég að þetta var nóg fyrir mig. Þá var ég eins og nýþegar ég hljóp aftur af stað.“
Elísabetu til halds og traust var aðstoðarmaður sem hitti hana í öllum skálum þar sem hún stoppaði. „Það var kannski á fimm til fimmtán klukkutíma fresti sem ég hitti hann og ég hefði ekki getað gert þetta nema hafa hann með mér. Hann hugsaði alltaf fyrir mig svo ég gat nýtt tímann til að hvílast á meðan hann undirbjó allt.“
Fyrstu þrjá dagana í hlaupinu fengu hlauparar frábært veður, en að sögn Elísabetar var veðrið ekki gott síðasta sólarhringinn. „Ég lenti í aðstæðum eina nóttina þar sem ég var búin að vera mjög brött og ætlaði að skila mér á eina stöðina hratt nema þegar ég kom efst upp þá skall áógeðslegt veður; grenjandi rigning og rok í 2.700 metra hæð,“ segir Elísabet og heldur áfram:
„Ég var ekki vel klædd en sem betur fer var ég með tveimur mönnum með mér þarna. Og sem betur fer var lítill fjallakofi þarna, eins konar neyðarkofi, sem við komumst inn í. Þegar við komum þangað þá gjörsamlega „krassa“ég eftir að hafa verið úti í þessu veðri um miðja nótt,“ segir hún og bætir við að hún hafi hrunið niður í orku.
Hún hafi tekið sér klukkutíma til að hvíla sig inni í skálanum áður en hún manaði sig upp í að fara út aftur og komast yfir skarðið. „Á þessum tímapunkti missti ég alla tilfinningu í höndunum og þær urðu alveg kraftlausar. Ég nota stafi en gat ekki notað þá þarna til að hjálpa mér niður svo þetta var frekar erfitt,“ segir Elísabet. „Þegar ég kom á drykkjustöðina fyrir neðan brotnaði ég niður.“
Á drykkjustöðinni hafi hún stoppað í tvo tíma, og þar af nýtt tímann til að leggja sig í 40 mínútur. „Eftir það var ég bara eins og ný. Þetta var í gærmorgun og þá þurfti ég að fara af stað upp næsta fjall í mestu rigningu sem ég hef upplifað,“ segir Elísabet, en segir að fyrir vikið hafi verið enn betri tilfinning að koma í mark.
Ásamt nokkrum hlaupurum sem hún kynntist ákvað Elísabet að hlaupa síðasta legginn í hóp. „Ég hef aldrei gert það áður en það var rosalega skemmtilegt og gerði þetta aðeins þægilegra en að vera ein að þjösnast í mark og koma þangað algjörlega buguð,“ segir hún og heldur áfram:
„En seinustu tíu kílómetrarnir voru þeir lengstu sem maður hefur upplifað. En ég var svo rosalega heppin að kynnast fólki á leiðinni. Allir sem eru að hlaupa eru meiri brjálæðingar en maður sjálfur svo það er mjög gaman að tala við fólk.“
Elísabetu segist hafa liðið vel 90% af tímanum, og virkilega notið sín. „Ég kom ekki þarna inn með brjálað keppnisskap og hugsaði að ég ætlaði að lenda á palli því ég vissi að það væri ekki sniðugt. Ég vildi frekar njóta mín og var búin að ákveða að fyrstu 230 kílómetrana myndi ég algjörlega hlaupa mitt eigið hlaup og líða vel. Svo eftir það myndi ég taka stöðuna og byrja þá að keppa og reyna að ná næstu konu á undan,“ segir hún. „Það var rosa gaman að geta komið inn í það og staðið sig vel.“
En hver er galdurinn á bakvið svona góðan árangur?„Maður má aldrei hugsa um hvað maður á mikið eftir, heldur bara næsta áfangastað, bara næsta tind, næstu drykkjustöð. Maður á heldur aldrei að hugsa um kílómetra. Ég er með hæðamæli svo ég horfi á hann og hugsa hvað ég er að hækka mig og lækka mig mikið en ekki hvað þetta séu margir kílómetrar,“ segir Elísabet. „Svo er þetta auðvitað mikil hugarleikfimi að komast í gegnum þetta og bugast ekki alveg.“
„Maður brýtur þetta upp í kafla. Ég reyni að vera með einhvern partner og tala við hann og svo er ég líka með tónlist. Það er rosa gott þegar maður er svona lengi að því maður þarf að halda takti og vera vakandi. Mér finnst gamna að hlusta á tónlist þegar ég er að hlaupa en stundum getur hún verið ekki góð t.d. ef ég er orðin mjög þreytt þá getur tónlistin truflað mann,“útskýrir Elísabet.
Hún segist mæla með hlaupinu fyrir þá aðila sem eru með réttan undirbúning og færni. „Þetta er samt kannski ekkert hollt. Maður er ekki að gera líkamanum gott á meðan á þessu stefnur en líkaminn er ótrúleg vél og ekkert smá fljótur að gera við sig,“ segir Elísabet. „Þetta er að lifa lífinu – að vera úti að hreyfa sig. Við erum gerð til að vera lengi á fótum.“
Spurð um það hvernig henni líði segist hún vera ótrúlega góð. „Ég er með eina blöðru á hælnum en annars ekki neitt,“ segir hún. „Ég var í sömu skónum allan tímann og öðru hvoru verkjaði mig rosalega í iljarnar en með því að taka þessi tuttugu mínútna stopp þá hlóð ég fæturna bara eins og síma.“
Að lokum segist Elísabet vera afar ánægð meðárangurinn. Hún hafi kynnst mikið af fólki og upplifunin hafi verið einstök í alla staði. Lokaspretturinn hafi vissulega verið krefjandi, en það hafi verið þess virði.
„Þetta var mjög mikil bugun í lokin því það var grenjandi rigning og maður var alveg tilbúinn að klára. En það er mjög skrítið að vera ekki að fara upp á hátt fjall núna,“ segir Elísabet, en kveðst þó alveg tilbúin að takast á við fjöllin á nýjan leik. „Ég væri alveg til í að fara upp í fjall núna.“