Fá námsúrræði fyrir kvenfanga

Engin sérstök kennslustofa var í Kópavogsfangelsi og ekkert næði til …
Engin sérstök kennslustofa var í Kópavogsfangelsi og ekkert næði til lærdóms annars staðar en í fangaklefanum. Aðstæður til náms eru því mun betri á Litla-Hrauni. mbl.is/Brynjar Gauti

Þeim konum sem sitja í fangelsi á Íslandi standa færri og einhæfari námsmöguleikar til boða en karlföngum og engir námsmöguleikar munu standa til boða þeim konum sem hefja afplánun í fangelsinu á Hólmsheiði nú síðar í mánuðinum.

Þetta segir Birna Aðalheiður Árdal Birgisdóttir sem vinnur að MA-ritgerð um nám kvenfanga í afplánun á Íslandi. Hugmyndin að ritgerðarefninu kviknaði þegar Birna, sem er kennaramenntuð, heimsótti Litla-Hraun sem hluta af áfanga í afbrotafræði.

Frétt mbl.is: Bylting í samanburði við Kópavogsfangelsið

„Konur eru í miklum minnihluta þeirra sem afplána fangelsisdóma á Íslandi,“ segir Birna og bendir á að svo sé einnig annars staðar í heiminum. „Á heimsvísu eru konur færri enn 10% af heildarfjölda fanga og svo virðist sem öll úrræði séu sniðin fyrir karla, en síðan eru þau líka nýtt fyrir konur jafnvel þó að þau henti kannski ekki alltaf.“

Á Íslandi sitja oft fáar konur í fangelsi í einu og því sé litlu fjármagi veitt til að halda úti verkefnum sem taka sérstakt tillit til þeirra aðstæðna.

Karlar geta fengið kennslu alla daga, en konurnar 1-2 í viku

Við gerð ritgerðarinnar kynnti Birna sér hvaða nám stóð þeim konum til boða sem afplánuðu dóm í Kópavogsfangelsi. „Eina staðnámið sem stóð til boða var bóklegt nám til stúdentsprófs í íslensku, ensku og stærðfræði.“ Kennari frá Menntaskólanum í Kópavogi kom þá í fangelsið og kenndi þeim sem vildu læra. Engin sérstök kennslustofa var hins vegar í fangelsinu og ekkert næði til lærdóms annars staðar en í fangaklefanum. Þá var netaðgangur verulega takmarkaður.

„Körlum í fangelsi á Íslandi stendur til boða að fara í skóla á hverjum virkum degi í sérútbúnum skólastofum innan fangelsisins á Litla-Hrauni. Konurnar fengu að velja íslensku, ensku og stærðfræði og fengu þá kannski kennslu 1-2 daga í viku og 2-3 tíma í senn,“ segir Birna.

Hún bendir á að þetta eigi að breytast með tilkomu fangelsisins á Hólmsheiði. Námið sem bjóða eigi upp á þar er hins vegar enn í ferli og ekki fullmótað. Haft var eftir Páli Winkel fangelsismálastjóra á mbl.is á þriðjudag að fyrstu fangarnir sem flytji á Hólmsheiðina nú síðar í mánuðinum séu þær konur sem nú sitja inni.  

„Þannig að konur sem hefja afplánun núna geta ekki sótt sér nám, á meðan þeir karlar sem vilja sækja sér nám geta ýmist sótt um að vera áfram á  Litla-Hrauni, eða að vera lengur á Litla-Hrauni og láta svo færa sig yfir á Hólmsheiðina. Þannig að enn hafa þeir fleiri tækifæri af því að mengið er stærra.“

Skortir verknám, námskeið og fjölbreyttara nám

Birna segir viðmælendur sína hafa bent á að vöntun sé á fjölbreyttara námi til lengri og styttri tíma, sem og námskeiðum í fögum á borð við lífsleikni og sjálfstyrkingu.

Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að þær konur sem sitja í fangelsi eru oft verr staddar líkamlega og andlega en karlarnir og því e.t.v. ekki tilbúnar að hefja bóklegt nám til stúdentsprófs. „Þær eru líklegri til að vera í neyslu áfengis og vímuefna og glíma við margþættan persónulegan vanda og þyrftu því kannski frekar styttri námskeið og einhvers konar virkni til að byggja sig upp.“

Ýmis úrræði á borð við verknám hafa gefist vel erlendis. „Í Evrópuskýrslu frá  árinu 2007 kemur fram að Ísland er eina landið í Evrópu þar sem kvenföngum stendur verknám ekki til boða.“ Hún bendir á að þetta eigi raunar einnig við um karlana, nema í einstaka undantekningatilfelli. 

„Námskeið á borð við lífsleikni, sjálfstyrkingu, uppeldi, skyndihjálp og annað slíkt hafa virkað vel fyrir fanga. Engin slík námskeið eru hins vegar í boði hér á landi fyrir fanga og fyrir konurnar er ótrúlega lítil virkni í boði, þær eru í raun bara að bíða af sér dóminn.“

Þannig sé skortur á námskeiðum til þess að halda kvenföngum í virkni á meðan á afplánun stendur, sem og styttra námi til starfsréttinda svo unnt sé að styrkja stöðu kvennanna á vinnumarkaði eftir að afplánun lýkur.

Birna Aðalheiður Árdal Birgisdóttir segir einhæft nám standa til boða …
Birna Aðalheiður Árdal Birgisdóttir segir einhæft nám standa til boða þeim konum sem sitja í fangelsi á Íslandi. Ljósmynd/ Birna Aðalheiður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka