Karlmaður sem lét lífið þegar hann varð fyrir bifreið á Suðurlandsvegi klukkan ellefu í gærkvöldi var í tíu manna hópi erlendra ferðamanna sem lagt höfðu bifreiðum sínum úti í vegarkanti og höfðu í hyggju skoða flugvélarflakið á Sólheimasandi. Ökumaður bifreiðarinnar, sem maðurinn varð fyrir, er einnig erlendur ferðamaður.
Frétt mbl.is: Banaslys á Sólheimasandi
Frá þessu var greint í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins. Ekki liggur fyrir með hvaða hætti slysið bar að en slysið og aðdragandi þess er í rannsókn hjá lögreglunni á Suðurlandi. Þjóðveginum var lokað í um þrjár klukkustundir á meðan vettvangsrannsókn fór fram.