Kanna hvort skjálftar tengist niðurdælingu

Verið er að kanna hvort skjálftarnir tengist niðurdælingu vinnsluvatns frá …
Verið er að kanna hvort skjálftarnir tengist niðurdælingu vinnsluvatns frá Hellisheiðarvirkjun. mbl.is/Árni Sæberg

Sérfræðingar á vegum Orku náttúrunnar, Orkuveitu Reykjavíkur, Veðurstofu Íslands ásamt öðrum vísindamönnum, fara nú yfir skjálftavirkni sem varð um helgina við Húsmúla á Hengilssvæðinu. Verið er að kanna hvort skjálftarnir tengist niðurdælingu vinnsluvatns frá Hellisheiðarvirkjun.

Í tilkynningu, sem Orka náttúrunnar hefur sent á fjölmiðla, kemur fram, að vitað sé að breytingar á tilhögun niðurdælingar, sem staðið hafi við Húsmúla frá árinu 2011, geti orsakað svokallaða gikkskjálfta.

„Þar sem engar breytingar á niðurdælingunni hafa verið gerðar upp á síðkastið kallar hrinan á ítarlega greiningu allra gagna. Sú greining stendur yfir,“ segir í tilkynningunni.

Vatnið getur virkað eins og smurning sem losar um spennu

Þar segir ennfremur, að allt frá því Hellisheiðarvirkjun hafi verið tekin í notkun, árið 2006, hafi vinnsluvatni frá virkjuninni verið dælt niður í jarðhitageyminn.

„Nú er dælt niður á tveimur stöðum; við Gráuhnúka og við Húsmúla. Magnið sem dælt er niður nemur 700-800 lítrum á sekúndu. Árið 2011 urðu svokallaðir gikkskjálftar við Húsmúla þar sem vatnið sem dælt var niður virkaði eins og smurning og það losnaði um spennu sem var í jarðlögunum,“ segir í tilkynningunni.

Í kjölfarið var tekið upp verklag með tveimur meginþáttum:

  • Að forðast snöggar breytingar á tilhögun niðurdælingar.
  • Að láta almenning og yfirvöld vita fyrirfram þegar gera þyrfti breytingar á niðurdælingunni.

Tekið er fram, að þesu verklagi hafi verið fylgt síðan.

Skjálftahrina fannst við Húsmúla sem er skammt frá Hengilssvæðinu.
Skjálftahrina fannst við Húsmúla sem er skammt frá Hengilssvæðinu. Kort/Map.is

Gikkskjálftar alla jafna smáir

„Í nýrri jarðgufuvirkjunum er almennt gerð sú krafa að vinnsluvatninu sé skilað niður í jarðhitageyminn. Niðurdæling vinnsluvatns frá jarðgufuvirkjunum hefur tvíþættan tilgang. Annars vegar dregur hún úr umhverfisáhrifum á yfirborði með því að vinnsluvatnið er ekki losað þar. Hins vegar eflir niðurdælingin sjálfbærni nýtingar jarðhitaauðlindarinnar með því að vinnsluvatni er skilað aftur niður í jarðlög þar sem það hitnar að nýju. Þetta spornar gegn lækkun á vatnsþrýstingi í jarðhitageyminum,“ segir í tilkynningunni.

„Við borun á jarðhitasvæðum – hvort sem það er vegna gufuöflunar eða niðurdælingar – er leitast við að finna lekar jarðmyndanir á borð við sprungur og misgengi. Sé spenna í þeim sprungum sem dælt er niður í getur vatnið virkað eins og smurning þannig að spennan losnar með skjálftum í nánasta umhverfi við niðurdælinguna. Slíkir skjálftar eru kallaðir gikkskjálftar og eru þeir alla jafna tiltölulega smáir, það smáir að þeir finnast ekki og mælast þeir helst þegar meiriháttar breytingar verða á niðurdælingunni. Árið 2011 fundust slíkir skjálftar þó í byggð og í kjölfarið var þróað verklag við niðurdælinguna sem fylgt hefur verið síðan,“ segir ennfremur.

Almenningur og viðbragðsaðilar upplýstir aukist líkur á skjálfta

Þá segir, að hluti verklagsins sé að senda almenningi upplýsingar þegar breyting verði á niðurdælingunni og vísindamenn telji tímabundið auknar líkur á skjálfta sem finnist í byggð. Bent er á, að Orka náttúrunnar, sem eigi og reki jarðgufuvirkjanirnar á Hengilssvæðinu, hafi nokkrum sinnum á síðustu misserum sent slíkar tilkynningar til almennings og viðbragðsaðila

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert