Vissu af saurgerlamengun á Flateyri

Sýni sem tekið var 12. september sýndi mun meiri mengun …
Sýni sem tekið var 12. september sýndi mun meiri mengun en fyrst mældist um mánaðamótin. mbl.is/Ómar Óskarsson

Neysluvatn á Flateyri var mengað af saurgerlum í 16 daga án þess að íbúar bæjarfélagsins væru upplýstir um það. Fréttavefurinn bb.is greinir frá því að sýni hafi verið tekin úr vatni hjá Bakkabúð 31. ágúst síðastliðinn og að þau hafi reynst menguð, innihaldið bæði E.coli- og kólígerla.

Þá kemur fram að niðurstöðurnar hafi verið kynntar Ísafjarðarbæ og Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða samdægurs.

Mengunin jókst í seinna sýninu

Í reglugerð um neysluvatn segir að mælist eitthvert magn E.coli-gerla í 100 millilítra sýni neysluvatns skuli gripið til „nauðsynlegra aðgerða til úrbóta til að endurheimta vatnsgæðin“. Enn fremur skuli heilbrigðisnefnd í samráði við Matvælastofnun „banna dreifingu eða notkun neysluvatnsins, nema eftir nauðsynlegar aðgerðir til verndar heilsu manna. Heilbrigðisnefnd skal tafarlaust veita neytendum upplýsingar og ráðgjöf.“

Ljóst þykir að brugðist hefur að framfylgja þessu ákvæði reglugerðarinnar, en tólf dögum seinna, 12. september, var tekið annað sýni sem sýndi talsvert meiri mengun, þar sem E.coli-gerlar fóru úr einum í þrjá á hverja 100 millilítra og kólígerlar úr einum í sex. Hvorugt má finnast í neysluvatni án þess að brugðist sé tafarlaust við.

Þá hafði Ísafjarðarbær ekki gefið út neins konar yfirlýsingu eða tilkynningu og hefur enn ekki gert það, samkvæmt upplýsingum mbl.is og bb.is, sem flutti fréttir af menguninni á föstudag eftir ábendingu frá íbúa sveitarfélagsins um að ekki væri allt með felldu.

Sjá frétt mbl.is: Saurgerlar í neysluvatni

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Samskiptaörðugleikar innanhúss

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir samskiptaörðugleika hafa valdið því að ekki var brugðist við menguninni með réttum hætti.

„Að vísu er þetta ekki mikil mengun en við hefðum hins vegar gjarnan viljað að það hefði verið brugðist fyrr og réttar við hjá áhaldahúsinu. Um mánaðamótin mælist einn gerill í hundrað millilítrum, sem jaðrar nú við að vera ekki neitt, en engu að síður á það að vera nóg til að menn fari af stað og kveiki á geislavörninni, þar sem vatnið er geislað og gerlarnir drepnir.

Eitthvað virðist bregðast í skilaboðunum, við vitum ekki alveg hvar það er, en þetta þarf að fara frá Heilbrigðiseftirliti í gegnum stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar og niður í áhaldahús.“

„Heppnin með okkur“

Hann segir geislunina hafa verið setta af stað einum eða tveimur sólarhringum seinna en bæjaryfirvöld hefðu viljað, í kjölfar seinni mælingarinnar sem sýndi mun meiri mengun.

„Venjulega er vatnið í lagi en þegar eitthvað svona mælist þá á að setja tækið í gang. Vegna einhverra mistaka í skilaboðum innanhúss, sem hugsanlega skýrast af mannabreytingum, fór þetta ekki rétta leið. En ég myndi alla vega segja að heppnin hafi verið með okkur þar sem mengunin var eftir allt saman lítil, því við getum virkilega dregið lærdóm af þessu og komið hlutunum í lag í framhaldinu.“

Aðspurður segist Gísli hafa frétt af menguninni síðla fimmtudags eða á föstudagsmorgun.

„Þá var verið að kveikja á tækinu.“

Opið bréf var sent bæjarstjóranum fyrir hönd íbúa Flateyrar.
Opið bréf var sent bæjarstjóranum fyrir hönd íbúa Flateyrar. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Eðlilegt að upplýsa íbúa

Gísli viðurkennir að upplýsa hefði átt íbúa um mengunina, eins og segir í reglugerðinni.

„Það skorti fullkomlega á að það væri rétt farið með þessar upplýsingar. Fyrst þarf náttúrulega að bregðast við og útrýma menguninni, en um leið og hún kemur í ljós þarf eðlilega að upplýsa íbúa. Það hefur eitthvað skort að menn legðu rétta skýringu í það.“

Mengunin er talin stafa af miklu yfirborðsvatni sem finnur sér leið í grunnvatnið, og er nú yfirstaðin að sögn Gísla.

Óska skýringa og svara

Fyrir hönd íbúa á Flateyri var sent opið bréf til bæjarstjóra á Ísafirði og heilbrigðiseftirlits Vestfjarða og var það birt á bb.is fyrr í dag.

Segir þar að Ísafjarðarbær, sem eigi og reki vatnsveituna, hafi ekki sent frá sér neinar upplýsingar um niðurstöður sýnatöku á vatninu.

„Það er á ábyrgð bæjarins að upplýsa íbúa og matvælaframleiðendur um jafnalvarlegan hlut og það er að neysluvatn sé mengað og það þurfi að sjóða vatnið. Þegar slíkt gerist er brýn nauðsyn að íbúum berist upplýsingar strax, t.d. með dreifibréfi eða nota tæknina og senda SMS-skilaboð í gegnum sendi á Flateyri. Einnig að senda upplýsingar um að vatnið sé aftur komið í eðlilegt horf.“

Þá lýkur bréfinu með ósk um skýringar og svör, sem og fullvissu um að þetta komi ekki fyrir aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert