Eigum enn óralangt í land

Eygló Harðardóttir á málþinginu í dag.
Eygló Harðardóttir á málþinginu í dag. mbl.is/Freyr

„Það er gott að sjá að við erum að þokast í rétta átt,“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, á málþingi FKA, Félags kvenna í atvinnulífinu.

Málsþingið í dag er hluti af sérstöku verkefni FKA sem stendur yfir frá 2013 til 2017 sem kallar á aukna ásýnd kvenna í fjölmiðlum.

Frétt mbl.is: Konur viðmælendur í 33% tilfella

„Það skiptir máli að halda svona málþing, að koma saman og tala um þetta. Það skiptir máli að þeir sem eru að stjórna fjölmiðlunum séu ekki bara að tala um jafnrétti, heldur að framkvæma. Þeir þurfa að fylgja því eftir sem þeir segja. Þetta er ákvörðun og þáttastjórnendur þurfa að tryggja að það séu jöfn hlutföll kynjanna,“ sagði Eygló.

Frá málþinginu í morgun.
Frá málþinginu í morgun. mbl.is/Freyr

Ekki ásættanlegt

Hún bætti við að þó að margt hafi verið gert þegar kemur að jafnréttismálum eigum við enn óralangt í land þangað til staðan telst vera ásættanleg varðandi jafna möguleika karla og kvenna.

 „Það sem dregur okkur niður hér á landi er kynbundinn launamunur, sem er fullkomlega óþolandi, kynbundið ofbeldi, sem er vandamál í öllum löndum, og möguleikar kvenna til valda og áhrifa á sviði stjórnmálanna og í atvinnulífinu,“ sagði Eygló.

Eldfim umræða

„Það er kynjaskekkja á meðal fréttamanna og fjölmiðlafólks. Fjölmiðar eru ekki að endurspegla raunveruleikan,“ sagði hún og bætti við að umræðan um jöfn hlutföll kynjanna væri eldfim.

„Við vitum að jafnréttisbarátta og femínismi mætir andstöðu.Staðan eins og hún er núna er ekki ásættanleg en saman getum við breytt henni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert