Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, sagði á málþingi Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA, í morgun að umbóta sé þörf á mörgum stöðum innan Rúv hvað varðar jöfn hlutföll karla og kvenna.
Frétt mbl.is: Konur viðmælendur í 33% tilfella
Í starfsmannahópi stofnunarinnar eru karlar 60% en konur 40%. Sama hlutfall karla og kvenna er á fréttastofu Rúv. Þetta kom fram í svari hans við spurningum sem FKA sendi Rúv.
Viðmælendur fréttastofunnar voru 67% karlar á móti 33% konum.
Málþingið í morgun var hluti af sérstöku verkefni FKA sem stendur yfir frá 2013 til 2017 sem kallar á aukna ásýnd kvenna í fjölmiðlum.
Að sögn Magnúsar Geirs eru hlutföll umsjónarmanna í dagskrá Rúv, bæði í útvarpi og sjónvarpi, nánast jöfn og þar hafa markvissar aðgerðir frá árinu 2014 verið að skila sér.
Þannig er jafnt hlutfall fréttalesara hjá fréttastofu Rúv og einnig er hlutfall umsjónarmanna í Kastljósi og Speglinum jafnt á meðal karla og kvenna.
Árið 2014 var ráðist í markvissar aðgerðir til að jafna hlut stjórnenda hjá stofnuninni. Áður voru 8 karlar í framkvæmdastjórn og ein kona en eftir breytingar á framkvæmdastjórn eru konur og karlar jafnmörg. Einnig eru fleiri konur en karlar í hópi millistjórnenda hjá Rúv en það er gjörbreytt staða frá árinu 2013.
Frá og með 1. janúar síðastliðnum hófst markviss talning viðmælenda í allri dagskrárgerð hjá Rúv. Uppgjör þess efnis er birt ársfjórðungslega. Í dagskrá Rúv að undanskildum fréttum, er nánast komið á jafnvægi en karlar eru þó ívið fleiri, eða um 52% á móti um 48% kvenna.
„Við erum að nálgast þetta jafnrétti. Við erum ekki komin þangað en við metum það sem svo að vinnustaðurinn sé mjög meðvitaður um þetta,“ sagði Magnús Geir. „Rúv ætlar að vera í fararbroddi á þessu sviði.“
Frétt mbl.is: Eigum enn óralangt í land
Hjá fyrirtækinu 365 voru karlar 65% viðmælenda og konur 35% fyrstu sex mánuði ársins. Þetta er aukning á kvenkyns viðmælendum því á sama tíma í fyrra voru hlutföllin 70% á móti 30%.
Í máli Sævars Freys Þráinssonar, forstjóra 365, kom fram að fyrirtækið sé stöðugt að reyna að jafna kynjahlutfallið á meðal viðmælenda en stundum reynist það vandkvæðum bundið.
„Við lendum reglulega í því að konur treysta sér ekki til að mæta í Í bítið vegna barna sinna. Þetta gerist aldrei með karla,“ sagði Sævar Freyr og átti þar við morgunþátt Bylgjunnar.