Karlmenn voru viðmælendur í 67% tilfella en konur í 33% þeirra samkvæmt nýrri greiningu á hlutfalli kynjanna í ljósvakamiðlum. Þetta er bæting um 3% frá síðustu mælingu.
Þetta kom fram í máli Brynju Baldursdóttur, framkvæmdastjóra Creditinfo, á málþingi sem Félag íslenskra kvenna í atvinnulífinu, FKA, stendur fyrir í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar í dag.
Mælt var tímabilið 1. september 2015 til 31. ágúst 2016. Ljósvakamiðlarnir sem voru mældir voru Rás 1, Rás 2, Bylgjan, Sjónvarpið og. Stöð 2. Bæði fréttir og þættir voru mældir.
Fjöldi frétta voru 9.856 talsins. Karlar voru að meðaltali 68% viðmælenda og konur voru 32%. Ekki var marktækur munur á milli útvarps- og sjónvarpsfrétta.
Alls voru 4.149 umræðuþættir greindir. Karlar voru að meðaltali 64% viðmælenda og konur 36%. Þrír þættir voru einungis með karlyns stjórnendur á meðan enginn þáttur var með einungis kvenkyns stjórnendur.
Samkvæmt nýlegri alþjóðlegri rannsókn eru konur 24% viðmælenda, sem er nákvæmlega sama hlutfall og árið 2010. Ísland stendur því 9 prósentum betur að vígi hvað þetta varðar. Þegar kemur að stjórnmálum og opinberum málefnum í alþjóðlegu rannsókninni eru konur 16% viðmælenda en voru 19% árið 2010.
Hvað dreifingu viðmælenda varðar í íslensku könnuninni, þá standa um 4% viðmælenda fyrir 41% af allri umfjöllun. Rætt var 15 sinnum eða oftar við 95 karlmenn og 45 konur. Tveir aðilar skera sig verulega úr fjöldanum, eða Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, er í þriðja sæti á listanum, og Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, í því fjórða. Katrín Jakobsdóttir er efsta konan á blaði í fimmta sæti.
Málþingið í dag er hluti af sérstöku verkefni FKA sem stendur yfir frá 2013 til 2017 sem kallar á aukna ásýnd kvenna í fjölmiðlum.
Fyrirmyndin er Stjórnarverkefnið sem félagið fylgdi eftir á árunum 2009 til 2013 þar sem aðkoma FKA hafði veruleg áhrif á umræðuna um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja.
Tilgangur verkefnisins er að vekja sem flesta til jákvæðrar vitundar um að konur búa yfir heilmikilli þekkingu og reynslu sem hægt er að nýta í frétta- og þjóðfélagsumræðu. Með fjölbreytni í viðmælendahópi eru fjölmiðlar líklegri til að endurspegla samfélagið.