Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, þakkaði í dag skólastjórnendum leik- og grunnskóla og fulltrúum foreldra fyrir aðkomu þeirra að aðgerðaáætlun í skólamálum sem borgarráð samþykkti 15. september.
Frétt mbl.is: Leggja stóraukið fjármagn í skólana
Á borgarstjórnarfundi sem nú stendur yfir sagði Dagur aðgerðaáætlunina, sem felur í sér um 680 milljóna króna aukafjárveitingu til skólanna á þessu ári, sameiginlegan ávöxt samtala við fyrrnefnda aðila.
Frétt mbl.is: Vilja snúa vörn í sókn í skólamálum
Borgarstjóri sagði tilefni aðgerðaáætlunarinnar viðsnúning á fjármálum borgarinnar. Borgaryfirvöld hefðu gjarnan viljað ráðast í sambærilegar aðgerðir fyrr, en hendur þeirra hefðu verið bundnar þar sem fjárhagur borgarinnar var „í járnum“. Nú horfðu mál öðruvísi við, bæði vegna hagræðingaraðgerða sem skilað hefðu árangri en einnig vegna aukinna tekna.
Sagði Dagur að stefnt væri að því að reykvískir skólar yrðu áfram leiðandi á landsvísu og þótt víðar væri leitað, og að því að byggja undir frekari skólaþróun og uppbyggingarstarf; „í stuttu máli snúa vörn í sókn.“