Skiptar skoðanir um fullveldisframsal

AFP

Fulltrúar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis eru ekki á einu máli um það hvort framsal á fullveldi vegna fyrirhugaðrar innleiðingar á evrópskum reglum hér á landi um fjármálaeftirlit samrýmist stjórnarskránni. Samstaða er þó um að málið reyni að minnsta kosti á ítrasta þanþol stjórnarskrárinnar þegar kemur að heimildum til framsals á fullveldi.

Þetta kemur fram í umsögn nefndarinnar um málið sem birt var á vef Alþingis í gær en utanríkismálanefnd óskað eftir umsögninni.

Þingsályktun um að Ísland gangist undir yfirþjóðlegt evrópskt fjármálaeftirlit sem sinnt yrði af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) liggur fyrir Alþingi og er síðari umræða um hana á dagskrá þingsins í dag. Tillögunni var vísað til utanríkismálanefndar í lok apríl en umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lá ekki fyrir fyrr en um miðja síðustu viku. Tillagan var síðan afgreidd út úr utanríkismálanefnd í gær.

„Sumir nefndarmenn telja að málið reyni á þanþol stjórnar­skrár hvað varðar fullveldisafsal og að þar reyni á ítrustu mörk en löggjafanum sé engu að síður heimilt að kveða á um slíkt framsal. Aðrir nefndarmenn telja að hér sé gengið lengra en 2. gr. stjórnarskrár leyfi og að framsalsákvæði þurfi í stjórnarskrá til að unnt verði að veita umfangsmikið framsal,“ segir í umsögninni.

Taka ekki afstöðu til mögulegs stjórnarskrárbrots

Varðandi þetta atriði fáist pólitísk niðurstaða í atkvæðagreiðslu í þingsal, segir áfram í umsögninni, en dómstólar eigi um það síðasta orðið. Einnig kemur fram í umsögninni að skiptar skoðanir séu um málið á meðal lögspekinga.

Vísað er í greinargerð frá lagaprófessorunum Björgu Thorarensen og Stefáni Má Stefánssyni þess efnis að um sé að ræða framsal framkvæmdarvalds og dómsvalds og að vald eftirlitsstofnananna sé hvorki vel afmarkað né á þröngu sviði enda nái það í reynd til hvers kyns starfsemi fjármálafyrirtækja.

Einnig lá fyrir nefndinni álitsgerð Skúla Magnússonar lektors þess efnis að framsal valdheimilda í þessu tilfelli samræmdist í heild sinni íslenskum stjórnarskipunarlögum.

Tekið er undir umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í áliti meirihluta utanríkismálanefndar og ekki tekin endanleg afstaða til þess hvort framsal á fullveldi samrýmist stjórnarskránni. Engu að síður leggur meirihluti nefndarinnar til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert