Skýrsla meirihluta fjárlaganefndar um endurreisn bankakerfisins verður formlega að skýrslu á morgun þegar hún verður tekin út úr fjárlaganefnd. Þetta sagði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður nefndarinnar, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, lýsti því yfir við upphaf þingfundar í gær að skýrslan væri að hans áliti ekki skýrsla í skilningi þingskapa heldur samantekt þar sem hún hefði ekki verið afgreidd formlega af fjárlaganefnd. Vigdís sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að með skýrslunni hefðu höfundar fyrst og fremst verið að draga saman upplýsingar um málið.
Frétt mbl.is: Ekki skýrsla í skilningi þingskapa
„Hún verður formlega þingskýrsla á morgun þegar við tökum málið út úr fjárlaganefnd. Þannig að þetta er orðhengilsháttur, það er verið að hanga í einhverjum tæknilegum atriðum en ekki efnislegum,“ sagði Vigdís. Mikið hefði verið látið með skýrslu Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem tengdist sama máli en hún væri stödd á sama stað í þinginu.
Vigdís sagði fjárlaganefnd ekki hafa völd til þess að gefa fólki kost á að andmæla slíkum skýrslum og því hefði Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, ekki verið boðið upp á það. Fyrir helgi sagði hún skýrsluna ekki rannsóknarskýrslu og því kallaði hún ekki á slíkt. Vigdís kallaði hins vegar eftir því að málið yrði rannsakað.
Frétt mbl.is: Skýrslan ekki rannsóknarskýrsla
Spurð hvers vegna rannsóknarnefnd um endurreisn bankakerfisins hefði ekki verið skipuð í ljósi þess að Vigdís væri í stjórnarmeirihlutans sagði hún Framsóknarflokkinn heils hugsar að baki sér í því. Hins vegar væri Sjálfstæðisflokkurinn ekki spenntur fyrir slíkri rannsókn og stjórnarandstöðuflokkarnir væru einnig andvígir því að hún færi fram.
„[É]g skal bara segja ykkur það að það er ekki spenningur fyrir þessu hjá Sjálfstæðisflokknum, að fara af stað með rannsókn,“ sagði Vigdís.