„Hafi ég ekki verið sannfærður fyrir um að rannsaka þyrfti málið, sem ég var, þá er ég ennþá sannfærðari í dag,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar, í samtali við mbl.is og vísar þar til þess hvernig staðið var að því á síðasta kjörtímabili að endurreisa bankana og afhenda þá erlendum kröfuhöfum.
Skýrsla um málið var afgreidd út úr fjárlaganefnd Alþingis í morgun af meirihlutanum en athygli vakti að Vigdís Hauksdóttir, formaður nefndarinnar, er nú ein skrifuð fyrir henni. Guðlaugur segir aðspurður að það sé þó ekki vegna þess að einhverjir séu að hlaupa frá málinu heldur sé um að ræða viðleitni til þess að fá fram umræðu um efni skýrslunnar.
Frétt mbl.is: Fengið hótanir um æru- og eignamissi
„Málið snýst einfaldlega um það að menn fari að ræða efnistriði málsins í stað þess að tala endalaust um formið,“ segir hann. Þannig hafi verið ákveðið að Vigdís skrifaði sig ein fyrir skýrslunni enda hefði hún unnið hana að mestu leyti.
Guðlaugur segist á þingmannsferli sínum aldrei hafa upplifað það að umræða um skýrslu snerist öll um það hver hafi skrifað hana eða önnur formsatriði í stað þess að ræða efni hennar. „Það hefur verið endalaus umræða um formið. Nú er þetta bara skýrt, þetta er skýrsla hennar. Við samþykktum að vísa málinu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og lögum til að hafin yrði rannsókn á henni og öðrum gögnum sem sjá dagsins ljós núna.
Spurður um hótanir um æru- og eigna missi sem þingmenn í meirihlutanum hafa orðið fyrir að því er segir í bókun þeirra á fundi fjárlaganefndar í morgun segir Guðlaugur að það mál sé einfaldlega í ferli.