Fengið hótanir um æru- og eignamissi

Skýrslan var kynnt á blaðamannafundi í síðustu viku.
Skýrslan var kynnt á blaðamannafundi í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skýrsla um endurreisn bankakerfisins sem kynnt var í síðustu viku af forystumönnum fjárlaganefndar Alþingis var afgreidd úr nefndinni á fundi hennar í morgun. Skýrslan verður í framhaldinu send stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til umfjöllunar að ósk Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar.

Vigdís segir í samtali við mbl.is að ákveðið hefði verið hún legði skýrsluna fram í eigin nafni þar sem hún hefði unnið hana að mestu leyti ein í eigin nafni þó fjárlaganefnd hefði komið að því að kalla eftir upplýsingum. Vonast væri til þess að það yrði til þess að koma af stað efnislegri umræðu um skýrsluna. Eftirfarandi bókun var samþykkt af meirihluta fjárlaganefndar:

„Undirritaðir þingmenn ítreka mikilvægi þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hrindi af stað rannsókn og að leynd á gögnunum er varða málið verði aflétt.

Þingmenn innan stjórnarmeirihluta fjárlaganefndar hafa fengið beinar hótanir um æru- og eignamissi frá háttsettum embættismanni eftir að skýrslan hafði verið kynnt.

Kvörtun vegna þess verður sett í viðeigandi farveg. Í ljósi þeirra viðbragða telja undirritaðir enn frekar mikilvægt að rannsókn fari fram.“

Bókunin er auk Vigdísar undirrituð af þingmönnunum Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Ásmundi Einari Daðasyni, Haraldi Benediktssyni og Páli Jóhanni Pálssyni.

Vigdís segir á Facebook-síðu sinni í morgun að umræðan um skýrsluna hefði því miður snúist nær eingöngu um form en ekki efni.

„Það er mikilvægt að fram fari umræða um efni skýrslunnar. Reynt hefur verið að koma til móts við athugasemdir er varða formið og þess vegna hefur skýrslu minni með fylgiskjölum verið vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til frekari meðferðar.“

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir. mbl.is/RAX
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka