Landvernd telur samþykkt ríkisstjórnarinnar á frumvarpi sem kveði á um heimild fyrir Landsnet til að reisa og reka raflínur milli Þeistareykjavirkjunar og iðnaðarsvæðisins á Bakka, áður en úrskurður óháðrar úrskurðarnefndar liggur fyrir, vera gróft brot á mannréttindum. Greint var frá því í morgun að ríkistjórnin hefði samþykkt frumvarp þessa efnis, sem yrði lagt fyrir þingið fljótlega.
„Okkar viðbrögð eru fyrst og fremst þau að hér sé um að ræða gróft brot á þeim mannréttindum að geta borið ákvarðanir stjórnvalda undir óháðan aðila, sem úrskurðarnefndin er,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, í samtali við mbl.is.
Frétt mbl.is: Samþykktu frumvarp um raflínur að Bakka
Landvernd kærði fyrr í sumar framkvæmdaleyfi vegna Þeistareikjalínu 1 og Kröflulínu 4 og var málið í kjölfarið sent til óháðrar úrskurðarnefndar sem ákvað að stöðva skyldi framkvæmdir þar til úrskurður lægi fyrir.
„Þessi leið er inngrip inn í ferli sem óháður aðili á að fjalla um,“ segir Guðmundur Ingi. „Þetta er sambærilegt því og ef ríkisvaldið væri að íhlutast um störf dómstóla sem þykir ekki viðeigandi í lýðræðisríkjum. Þarna er verið að brjóta á rétti almennings og félagasamtaka til að láta reyna á svona ákvarðanir.“
Guðmundur Ingi segir ekki síður umhugsunarvert hvaða fordæmisgildi þessi ákvörðun stjórnvalda hafi, eða þá hvaða skilaboð þetta séu til almennings um hans þátttöku í slíkri ákvarðanatöku.
„Við teljum þetta enn fremur vera brot á alþjóðasamningum,“ segir hann og kveður ákvörðunina brjóta gegn bæði EES samningnum og Árósarsamningnum.