Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og nefndarmaður í fjárlaganefnd, hefur sent fjármálaráðherra kvörtun vegna framkomu Guðmundar Árnasonar ráðuneytisstjóra, sem hann segir hafa hótað sér æru- og eignamissi í símtali.
Frétt mbl.is: Telur sig vera embættismanninn
Haraldur sendi yfirlýsingu á fjölmiðla nú fyrir stundu. Þar greinir hann frá símtali við Guðmund, þar sem hann segir þann síðarnefnda hafa krafist þess að hann upplýsti sig um afstöðu sína til skýrslu Vígdísar Hauksdóttur um endurreisn bankanna.
„[...] skilaboð ráðuneytisstjórans voru skýr. Ætlun hans um að draga til ábyrgðar þá þingmenn sem tækju þátt í afgreiðslu skýrslunnar var augljós með beinni hótun um að þeir skyldu þola æru- og eignamissi.
Símtal ráðuneytisstjórans, og samskipti hans við mig sem alþingismann og fulltrúa í fjárlaganefnd, er óviðeigandi og hótun hans í minn garð og annarra grafalvarleg,“ segir Haraldur m.a.
Yfirlýsing Haraldar í heild:
„Síðastliðið föstudagskvöld um kl. 20.00 hringdi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, í heimasíma minn. Vegna alvarleika símtalsins hef ég leitað til umboðsmanns Alþingis eftir leiðbeiningum, upplýst forseta Alþingis um efni símtalsins og sent fjármálaráðherra, yfirmanni ráðuneytisstjórans, formlegt kvörtunarbréf.
Í áðurnefndu símtali krafðist ráðuneytisstjórinn að ég upplýsti um afstöðu mína til skýrslu, sem kennd er við Vígdísi Hauksdóttur um einkavæðingu bankanna hina síðari, og var til umfjöllunar í fjárlaganefnd. Ég benti ráðuneytisstjóranum á að nefndin ætti eftir að afgreiða málið og ég hefði ekki skrifað undir neinar ásakanir, sem ráðuneytisstjórinn taldi að fælust í áðurnefndri skýrslu.
Símtalið mun ég ekki rekja frekar. En skilaboð ráðuneytisstjórans voru skýr. Ætlun hans um að draga til ábyrgðar þá þingmenn sem tækju þátt í afgreiðslu skýrslunnar var augljós með beinni hótun um að þeir skyldu þola æru- og eignamissi.
Símtal ráðuneytisstjórans, og samskipti hans við mig sem alþingismann og fulltrúa í fjárlaganefnd, er óviðeigandi og hótun hans í minn garð og annarra grafalvarleg.
Í samræmi við ráðleggingar umboðsmanns skrifaði ég yfirmanni ráðuneytisstjórans, fjármálaráðherra, formlegt kvörtunarbréf dags. 21. september 2016. Þar segir meðal annars:
„Ummæli ráðuneytisstjórans voru ósamboðin stöðu hans og virðingu sem æðsta embættismanns fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Ég sé mig tilneyddan með bréfi þessu að leggja fram formlega kvörtun yfir framkomu ráðuneytisstjórans og jafnframt að fara fram á að farið verði yfir mál hans og brugðist við eftir atvikum í samræmi við réttindi hans og skyldur, samkvæmt viðeigandi lögum“
Á meðan ráðherra er með málið til efnislegrar meðferðar tel ég ekki rétt, að óbreyttu, að ég ræði opinberlega um efnisatriði frekar.
Virðingarfyllst
Haraldur Benediktsson“