Segir vinnubrögðin óboðleg

Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ólga í Sjálfstæðisflokknum er fyrst og fremst ástæða þess að ákveðið var að Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, skrifaði sig fyrir skýrslu um endurreisn bankakerfisins. Þetta fullyrðir Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboð, í samtali við mbl.is.

Skýrslan var tekin út úr fjárlaganefnd á fundi nefndarinnar í morgun en einungis Vigdís er nú skráð fyrir henni. Áður var Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, einnig skráður fyrir henni. Guðlaugur sagði í samtali við mbl.is í dag að tilgangur þess væri að fá fram efnislega umræðu um skýrsluna í stað þess að aðeins væri rætt um formið. Hann hafnaði því að hann væri að hlaupa frá málinu. Þvert á móti væri áfram kallað eftir því að rannsókn færi fram á því hvernig staðið hefði verið að endurreisn bankanna.

Bjarkey segir um tilraun að ræða til þess að halda málinu gangandi að breyta því hvers sé skrifaður fyrir henni og vísa henni til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis með ósk um rannsókn. Bjarkey gagnrýnir harðlega hvernig staðið hefði verið að málum við gerð skýrslunnar og að fjárlaganefnd hefði verið blandað í það. Vigdís hefði getað vísað málinu til nefndarinnar sem þingmaður eða til umboðsmanns Alþingis.

„Þannig að það eru ótal leiðir færar í þessu aðrar en sú sem farin var og ég tel þetta einfaldlega ekki standast þingskaparlög,“ segir Bjarkey. Hún segir málið þegar hafa verið rannsakað og vísar þar til skýrslu sem unnin var af Brynjari Níelssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. „Þetta eru bara óboðleg vinnubrögð.“ Síðasti snúningurinn í málinu breyti þar engu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka