Embætti héraðssaksóknara hefur nú til rannsóknar hvarf skartgripa sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði lagt hald á vegna máls Viðars Más Friðfinnssonar, fyrrverandi eiganda skemmtistaðarins Strawberries.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir í samtali við mbl.is að munirnir hafi ekki fundist við eftirgrennslan lögreglu innanhúss og að lögmaður Viðars hafi kært lögreglu til embættisins vegna þessa.
„Við fórum fram á að fá þessa muni hingað yfir til okkar, því við töldum að fara þyrfti fram á þeim verðmat fyrir þingfestingu málsins á hendur Viðari,“ segir Ólafur, en Viðar var ákærður fyrir meiriháttar skattalagabrot.
„Þá komu þessi svör, frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að munirnir fyndust ekki.“
Ólafur segir að þá hafi embættið afráðið að fara ekki fram á upptöku munanna við þingfestingu málsins, fyrst svo bæri undir. Í kjölfarið barst embættinu kæra frá lögmanni Viðars á hendur lögreglu, þar sem farið er fram á að tildrög hvarfsins verði rannsökuð.
„Af hálfu kæranda er litið svo á að þarna hafi mögulega átt sér stað brot starfsmanna lögreglunnar, og við förum náttúrulega með rannsókn slíkra mála.“
Ríkisútvarpið greindi fyrst frá málinu.
Í tengslum við málið var farið fram á upptöku á tveimur fasteignum Viðars, fjölda bifreiða, meðal annars Cadillac, Corvette, Ford Thunderbird og BMW 3-seríu, og fjölda vörubifreiða, eins og fram kom í fréttaflutningi mbl.is af þingfestingu málsins þann 7. september síðastliðinn.
Þar hafnaði Viðar öllum ákæruliðum, bótakröfu og upptökukröfum í málinu, lögmaður hans sagði lögreglu hafa gert upptæka ýmsa skartgripi við húsleit hjá honum þegar málið var rannsakað. Meðal annars hafi verið um að ræða hringa og nælur sem væru erfðagripir og samtals milljóna virði.
Lögmaður hans sagði þá að samkvæmt lögreglu væru munirnir nú týndir og kallaði Viðar þetta ekkert annað en þjófnað af hálfu lögreglunnar.
Fyrsti liður ákærunnar á hendur Viðari lýtur að því að hann hafi ekki talið fram virðisaukaskattsskylda veltu að upphæð kr. 230.554.762. Þá hafi hann alls átti að greiða 52.655.427 kr. í virðisaukaskatt. Í ákærunni segir að hann hafi rangfært bókhald einkahlutafélagsins sem sá um rekstur staðarins, þannig að bókhaldið hafi gefið ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna félagsins.
Þar að auki er hann ákærður fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2011-2014 með því að telja ekki fram í skattframtölum þessara ára tekjur að upphæð 64 milljónir króna.
Er það upphæð sem viðskiptavinir eiga að hafa lagt inn á persónulegan bankareikning ákærða en þær tekjur voru skattskyldar samkvæmt lögum. Samtals vangreiddur tekjuskattur og útsvar af þeirri upphæð er sagt nema rúmlega 28 milljónir króna.
Ákæruvaldið telur brot ákærða varða við 1. mgr. 262. gr. hegningarlaga en refsirammi þess lagaákvæðis er sex ára fangelsi.
Fréttir mbl.is:
Grunur um skattsvik á Strawberries
Fyrrverandi eigandi Strawberries ákærður
Fyrrverandi eigandi Strawberries neitar sök