Hæstiréttur hefur fellt úrskurð Héraðsdóms Suðurlands úr gildi og staðfest kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um brot gegn konu á fimmtugsaldri í Eyjum um helgina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni í Vestmannaeyjum.
Fréttir mbl.is:
Grunaður um kynferðisbrot
Sögð hafa fundist nakin í húsgarði
Þar kemur fram að aðfaranótt laugardags hafi lögreglu verið tilkynnt af íbúa við Fífilgötu að á götunni væri kona sem væri með mikla áverka eftir líkamsmeiðingar. Lögreglumenn og sjúkraflutningamenn fóru á staðinn og var konan flutt þaðan á sjúkrahús.
Eftir aðhlynningu á sjúkrahúsi Vestmannaeyja var hún flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur til frekari rannsókna og læknismeðferðar.
Karlmaður var þá handtekinn skömmu síðar á heimili sínu grunaður um stórfellda líkamsárás, hættubrot og kynferðisbrot gagnvart konunni.
Lögreglustjóri krafðist gæsluvarðhalds yfir manninum á grundvelli rannsóknarhagsmuna en Héraðsdómur Suðurlands hafnaði kröfunni þann 18. september. Úrskurður héraðsdóms var kærður til Hæstaréttar sem féllst á kröfu lögreglustjóra í dag um að hinn grunaði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til laugardagsins 24. september næstkomandi.
Lögreglan biður þá sem einhverjar upplýsingar geta veitt um málið að hafa samband í síma 444-2091.