„Ég get ekki samþykkt að embættismenn geti hótað þingmönnum æru- og eignamissi,“ segir Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í fjárlaganefnd Alþingis, á Facebook-síðu sinni í dag.
Vísar Valgerður þar til bókunar þingmanna meirihluta fjárlaganefndar í dag þar sem fram kemur að þingmenn innan stjórnarmeirihluta nefndarinnar hafi fengið beinar hótanir um æru- og eignamissi frá háttsettum embættismanni eftir að skýrslan um endurreisn bankakerfisins hafði verið kynnt á blaðamannafundi í síðustu viku.
Frétt mbl.is: Fengið hótanir um æru- og eignamissi
Valgerður er þar að svara Guðrúnu Ögmundsdóttur, fyrrverandi þingmanni Samfylkingarinnar, sem spyr hvort fólk eigi bara að geta í eyðurnar um hvaða embættismann sé að ræða. Guðrún segir slíkar hótanir ekki ásættanlegar og hvetur til þess að greint verði frá nafni hans.
„[Þ]að verður gert,“ segir Valgerður og tekur Guðrún vel í það. Fram kemur í bókun meirihluta fjárlaganefndar á fundi nefndarinnar í morgun að kvörtun vegna málsins verði „sett í viðeigandi farveg.“ Ekki hafa fengið frekari upplýsingar um málið.
Frétt mbl.is: Enginn að hlaupa frá málinu