770 milljóna hækkun vegna hælisleitenda

Samtals hækka framlög til málefna hælisleitenda um 770 milljónir í …
Samtals hækka framlög til málefna hælisleitenda um 770 milljónir í fjáraukalögum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hækkun á framlagi til hælisleitenda og tengdra málaflokka nemur 770 milljónum samkvæmt fjáraukalagafrumvarpi sem kynnt var í gær á Alþingi. Stærsti liðurinn er hækkun upp á 640 milljónir vegna tæplega tvöföldunar á fjölda hælisleitenda hér á landi á yfirstandandi ári. Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld verði um 1.200 milljónir en það er tvöfalt hærra en áætlað var í fjárlögum.

Í fjáraukalögum eru þrír liðir sem tengjast hælisleitendum og eru þeir allir undir innanríkisráðuneytinu. Fyrst er fyrrnefndur flokkur sem hækkar um 640 milljónir samkvæmt frumvarpinu, næst er það 75 milljóna hækkun vegna kærunefndar útlendingamála og að lokum 55 milljónir vegna Útlendingastofnunar sem áformar að ráða fleiri lögfræðinga vegna fjölgunarinnar.

Í skýringum með frumvarpinu segir að flokkurinn hælisleitendur hafi hækkað mikið undanfarin ár, en árið 2011 var hann 60 milljónir. Í fyrra var hann 757 milljónir, en þá var fjöldi hælisleitenda 354. Áætlað er að fjöldi hælisleitenda verði um 700 á yfirstandandi ári, sem er tæp 98% aukning frá fyrra ári, og að heildarútgjöldin verði nærri 1.200 milljónir eða meira en tvöfalt hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum.

Hækkun á framlagi til kærunefndar útlendingamála er einnig komin til vegna fjölgunar hælisleitenda og þá er hann hluti af sérstakri ráðstöfun ríkisstjórnarinnar til að veita alls 200 milljónir í framlag til ýmissa stofnana og verkefna til að bregðast við stórauknum fjölda umsókna um hæli hér á landi. Sama á við um hækkun á framlagi til Útlendingastofnunar upp á 55 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka