Broddstafirnir brugðust í íslenskuprófi

Stafirnir hér fyrir ofan virka ekki hjá öllum nemendum í …
Stafirnir hér fyrir ofan virka ekki hjá öllum nemendum í ritunarþætti könnunarprófsins. Aðrir íslenskir stafir eru hins vegar í lagi.

Vandamál kom upp við framkvæmd samræmds könnunarprófs 7. bekkjar í íslensku í morgun en þá uppgötvaðist að í ritunarþætti prófsins, þar sem börnin eiga að skrifa 100 orða texta, var í sumum tilfellum ekki hægt að nota broddstafi, þ.e. á, í, ú og ó.

Aðrir íslenskir stafir voru í lagi.

Um 4.000 börn þreyta könnunarprófið í dag en að sögn Gylfa Jóns Gylfasonar, sviðsstjóra matssviðs hjá Menntamálastofnun, telja menn þar á bæ að vandinn tengist uppfærslu svokallaðs vefláss.

Tekið verður tillit til vandans við yfirferð prófanna.

Að sögn Gylfa kom vandamálið ekki upp fyrr en í morgun, en í forprófunum gekk allt sem skyldi. Í fyrstu var talið að vandinn væri bundinn við borðtölvur en hann hefur ekki komið upp þar sem notast er við spjaldtölvur. Nokkrir skólar hafa hins vegar sett sig í samband við Menntamálastofnun og sagt að borðtölvurnar séu ekki vandinn.

„Við höldum að þetta hafi með veflásinn að gera. Sumir hafa uppfært hann og aðrir ekki og þetta virðist vera tengt uppfærslunni,“ segir Gylfi.

Líkt og fyrr segir er vandamálið bundið við einn prófþátt, ritun, og hefur Menntamálastofnun þegar sett sig í samband við hönnuði prófakerfisins til að leita svara við því hvað veldur.

Gylfi segir öruggt að búið verði að leysa vandann þegar 4. bekkur þreytir prófin í næstu viku.

En er þetta sanngjarnt gagnvart þeim krökkum sem í þessu lenda?

„Við erum búin að vera í sambandi við nokkra skóla í morgun og þetta hefur ekki verið að trufla krakkana,“ segir Gylfi.

„Þetta eru náttúrulega 7. bekkjar-krakkar og þau eru alvön á þeim snjalltækjum sem þau eiga að nota ekki broddstafi. Ég er ekki að draga úr því að auðvitað er þetta bagalegt en eins og við vorum búin að gefa út þá getur eitthvað komið upp á í svona stórri tilraun. Það er afar gremjulegt að þetta hafi komið upp en það gerðist og við ætlum bara að leysa það til frambúðar.“

Að sögn Gylfa hefur próftakan að öðru leyti gengið allt að því snurðulaust fyrir sig. Ein fyrirspurn barst í morgun um hvort börnin mættu fara í frímínútur og þá hafði annar skóli samband þar sem 15 nemendur komust ekki inn í prófið, en þá dugði að endurræsa tölvurnar.

Gylfi segir skólana eiga heiður skilinn fyrir það hvernig þeir hafa tekist á við verkefnið, en þetta er í fyrsta sinn sem samræmd könnunarpróf eru lögð fyrir á rafrænu formi.

„Aðalatriðið er að hér eru rúmlega 4.000 börn að taka próf og það er bara að ganga mjög vel. Og þessar stóru áhyggjur sem voru fyrirfram um að það væru ekki til nægilega margar tölvur, að netsambandið væri ekki nægilega gott og að innra net skólanna þyldi þetta ekki; grunnskólarnir hafa bara leyst þetta frábærlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert