Kostnaður við kosningar 488 milljónir

Í fjáraukalögum er gert ráð fyrir að heildarkostnaður sem tengist …
Í fjáraukalögum er gert ráð fyrir að heildarkostnaður sem tengist kosningum sé um 488 milljónir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna kosninga verði 320 milljónir króna samkvæmt fjáraukalagafrumvarpi sem kynnt var á Alþingi í gær. Færist kostnaðurinn frá næsta ári á þetta ár vegna ákvörðunar um að flýta kosningum.

Þá er í fjáraukalögunum gert ráð fyrir 121 milljón króna í biðlaun og annars þingfararkostnaðar vegna fráfarandi þingmanna sem er reiknað með að falli til eftir fyrirhugaðar alþingiskosningar í október.

Áætlun um útgjöld miðast við hliðstæðan kostnað eftir kosningarnar 2013, þó tekið sé tillit til að fleiri þingmenn gætu dottið út af þingi í þetta skiptið. Gert er ráð fyrir að allt að helmingur biðlaunanna komi þó ekki til útborgunar fyrr en á árinu 2017.

Að lokum er gert ráð fyrir að 47 milljónir fari í ýmiss útgjöld sem falli til í framhaldi af kosningunum. Er um að ræða kostnað vegna kaupa á tækjum og búnaði fyrir nýja alþingismenn, standsetningu á húsnæði, flutningskostnað og útgáfu á kynningarefni fyrir nýja þingmenn.

Heildargjöld sem falla því til vegna kosninganna samkvæmt áætlun í fjáraukalögum nema því um 488 milljónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka