Prófkjörsfyrirkomulagið ekki heppilegt

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist sammála því að …
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist sammála því að prófkjörsfyrirkomulagið hafi ekki reynst heppilegt fyrir flokkinn. Eggert Jóhannesson

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­málaráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, seg­ir eft­ir­sjá að þeim Helgu Dögg Björg­vins­dótt­ur, nú­ver­andi for­manni Lands­sam­bands sjálf­stæðis­k­venna, Þóreyju Vil­hjálms­dótt­ur og Jarþrúði Ásmunds­dótt­ur, fyrr­ver­andi for­mönn­um lands­sam­bands­ins, sem til­kynntu í dag að þær hefðu sagt sig úr flokkn­um.

„Þetta eru öfl­ug­ar kon­ur sem hafa látið til sín taka í starfi flokks­ins og haft áhrif á stefnu­mót­un og áhersl­ur okk­ar t.d. á síðasta lands­fundi og af þeim sök­um er eft­ir­sjá að þeim,“ seg­ir Bjarni.

Frétt mbl.is: Yf­ir­gefa Sjálf­stæðis­flokk­inn

Í Face­book-færslu sinni segja þær ástæðu úr­sagn­ar sinn­ar vera þá að þær telji „full­reynt að hreyfa við þeim íhalds­sömu skoðunum og gild­um sem ríkja um jafn­rétt­is­mál í Sjálf­stæðis­flokkn­um“. Spurður hvort Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sé of íhalds­sam­ur í skoðunum varðandi jafn­rétt­is­mál seg­ir Bjarni flokk­inn ný­lega hafa gert jafn­rétti að einu af grunn­gild­um Sjálf­stæðis­flokks­ins.

„Mér finnst ein­blínt um of á niður­stöður próf­kjara í tveim­ur kjör­dæm­um. Flokks­menn í Sjálf­stæðis­flokkn­um hafa úr mörg­um ólík­um leiðum að velja þegar tyllt er sam­an lista fyr­ir alþing­is- eða sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar og það er fólkið í flokkn­um sem hef­ur valið að fara þessa leið,“ seg­ir hann.

Próf­kjör ekki leið til breyt­inga

„Ég hef áður harmað það að fleiri kon­ur skyldu ekki hafa unnið sæti ofar á lista, t.d. í mínu kjör­dæmi.“ Bjarni bend­ir í því sam­bandi á að ekki sé þó enn búið að ganga end­an­lega frá fram­boðslist­an­um í  því kjör­dæmi.

Spurður hvort próf­kjör sé úr­elt leið til að velja á lista, líkt og þær Helga Dögg, Þórey og Jarþrúður segja í yf­ir­lýs­ingu sinni, seg­ir Bjarni próf­kjörs­leiðina svo sann­ar­lega ekki vera galla­lausa. „Við höf­um séð of mörg dæmi á und­an­förn­um árum um að próf­kjör sé ekki leið til breyt­inga, þ.e.a.s. þeir sem sitja fyr­ir á fleti eru al­mennt lík­legri til að kom­ast bet­ur frá próf­kjör­um en nýir fram­bjóðend­ur.“ Þessi regla sé þó vissu­lega ekki al­gild, þó mörg dæmi sé um slíkt.

„En það sem er kannski verra er að við get­um seint sagt að próf­kjör­in hafi reynst Sjálf­stæðis­flokk­in­um leið breyt­inga í þess­um efn­um.“

Hann kveðst þó ekki vilja gera lítið úr fjölda glæsi­legra próf­kjörs­sigra kvenna og því sé vel hægt að finna dæmi um hið önd­verða. Bjarni nefn­ir sem dæmi  Þór­dísi Kol­brúnu Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ur, Ólöfu Nor­dal og  Sig­ríði And­er­sen. Eins hafi Hanna Birna Kristjáns­dótt­ir fengið góða kosn­ingu í Reykja­vík í síðustu alþing­is­kosn­ing­um. „Þá  kem­ur Áslaug Arna inn sem nýr fram­bjóðandi og hún bauð sig fram til rit­ara á Lands­fundi Sjálf­stæðis­flokks­ins á móti sitj­andi þing­manni, Guðlaugi Þór Þórðar­syni, sem ákvað að draga fram­boð sitt til baka,“ seg­ir Bjarni.

End­ur­spegl­ar ekki kraft kvenna í Sjálf­stæðis­flokkn­um

 „Ég er hins veg­ar sam­mála því að próf­kjörs­fyr­ir­komu­lagið hef­ur ekki reynst heppi­legt, en við erum engu að síður með það sem val­kost fyr­ir kjör­dæm­in og kjör­dæm­in hafa valið að fara þessa leið og við höf­um viljað virða vilja fólks­ins í flokkn­um.“

Í yf­ir­lýs­ingu Helgu Dagg­ar, Þóreyj­ar og Jarþrúðar er einnig sagt óá­sætt­an­legt að aðeins ein kona verði odd­viti fyr­ir flokk­inn í kom­andi alþing­is­kosn­ing­um.

Spurður um af­stöðu sína til þessa seg­ir Bjarni: „Mér finnst það ekki end­ur­spegla starfið, stuðning­inn og getu kvenna í Sjálf­stæðis­flokkn­um að það skuli raðast þannig. Mér finnst það ekki end­ur­spegla kraft kvenna í Sjálf­stæðis­flokkn­um nægi­lega vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert