Tveir fyrrverandi formenn Landssambands sjálfstæðiskvenna og núverandi formaður hafa sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum. Í yfirlýsingu sem birt var á Facebook kemur fram að þær telji „fullreynt að hreyfa við þeim íhaldssömu skoðunum og gildum sem ríkja um jafnréttismál í Sjálfstæðisflokknum.“
Segja þær að það hafi sannað sig í prófkjörum síðustu vikna að prófkjör skili ekki endilega góðum niðurstöðum þó þau séu lýðræðisleg fyrir þann þrönga hóp sem taki þátt í þeim. „Það er kominn tími til að horfast í augu við það að prófkjör eru úrelt leið við val á lista. Ýmsir aðrir stjórnmálaflokkar veigra sér ekki við því að velja þannig á lista að konur fái jöfn tækifæri til ábyrgðar á við karla,“ segir í yfirlýsingunni.
Segjast þær hafa barist mikið innan flokksins undanfarin ár meðal annars við að halda leiðtoganámskeið fyrir konur og talað fyrir mikilvægi þess að bjóða sig fram og hvatt flokksmenn til að kjósa konur. Þá hafi þær haft frumkvæði af því að í skipulagsreglum flokksins sé nú talað um jafnrétti kynjanna sem eitt af grunngildum hans. „Því miður hefur þetta ekki breytt stöðu kvenna innan Sjálfstæðisflokksins ― niðurstöður prófkjara í Suðurkjördæmi og Suðvesturkjördæmi eru áfall fyrir flokkinn. Aðeins ein kona verður oddviti fyrir flokkinn á landsvísu á næsta kjörtímabili sem er óviðunandi. Og nú er sú staða hugsanlega komin upp að engin kona sem kosin var á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í síðustu þingkosningum muni taka sæti á komandi þingi,“ segir í yfirlýsingunni.
Undir yfirlýsinguna rita Helga Dögg Björgvinsdóttir, formaður landssambands sjálfstæðiskvenna frá 2015, Jarþrúður Ásmundsdóttir, fyrrverandi formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna (2011-2013) og Þórey Vilhjálmsdóttir, fyrrverandi formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna (2013-2015).