Fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og stofnana sem tengjast samgöngum eru á leið í ferð til að kynna sér reynslu þriggja borga beggja vegna Atlantsála af umgjörð léttlestarkerfa. Svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins segir fyrst og fremst verið að horfa til góðra fyrirmynda.
Léttlestar- og hraðvagnakerfi sem tengir saman kjarna höfuðborgarsvæðisins og nefnist Borgarlína var sagt hryggjarstykkið í svæðisskipulagi sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu samþykktu síðasta sumar undir nafninu Höfuðborgarsvæðið 2040. Nú eru borgar- og bæjarstjórar sveitarfélaganna ásamt fulltrúum innanríkisráðuneytisins, Vegagerðarinnar og Strætó á leiðinni til Kaupmannahafnar, Strasbourgar í Frakklandi og Vancouver í Kanada til að kynna sér reynsluna af slíkum kerfum.
Frétt mbl.is: Kjarnarnir tengdir með Borgarlínu
„Þessi ferð er sérstaklega farin með það í huga að skoða utanumhald og umgjörð utan um svona verkefni. Fókusinn verður á hvernig þessar borgir skipuleggja félög í kringum uppbyggingu svona innviða, hvernig slík verkefni eru fjármögnuð og ekki síst læra af þeim sem hafa náð að árangri við að leysa svona yfirgripsmikil langtímaverkefni sem þvera á stjórnsýslumörk, lárétt og lóðrétt,“ segir Hrafnkell Á. Proppé, svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH).
Þessar þrjár borgir urðu fyrir valinu að sögn Hrafnkels vegna þess að fyrst og fremst sé horft til góðra fyrirmynda. Kaupmannahöfn sé skammt frá en þar hafi sveitarfélögin á stórborgarsvæðinu stofnað tvö félög utan um létt- og neðanjarðarlestarkerfið í samstarfi við danska ríkið.
Strasbourg sé áhugavert dæmi um árangursríkt samstarf sveitarfélaga þar sem tekist var á við það verkefni að byggja upp almenningssamgöngukerfi og breyta ferðavenjum íbúa. Á um tveimur áratugum hafi ferðir sem farnar eru á bílum fækkað úr 75% niður undir 50%. Á höfuðborgarsvæðinu stefni sveitarfélögin á að lækka hlutfall bílferða úr 76% niður í 58% á næstu 25 árunum.
Frétt mbl.is: Kostnaður á bilinu 40-90 milljarðar
Hvað Vancouver varðar segir Hrafnkell það skipta máli fyrir höfuðborgarsvæðið að líta til Norður-Ameríku.
„Þar er miklu gisnari byggðin og samsvörunin er meiri fyrir okkur við Norður-Ameríku en við við þessar gömlu evrópsku borgir sem byggðust að stórum hluta upp áður en bíllinn varð svona fyrirferðarmikill,“ segir Hrafnkell.
Vancouver hafi verið fyrirmynd í mörgum verkefnum sem tengjast almenningssamgöngum. Stórborgarsvæðið þar sé fyrsta svæðið þar sem öll samgönguverkefni ríkis og sveitarfélaga hafi verið sameinuð undir einn hatt.
„Það er í raun bylgja sem aðrir hafa verið að elta. London, Kaupmannahöfn og minni borgir á Bretlandi til þess að minnka flækjustigið og ná betri árangri fyrir alla ferðamáta,“ segir Hrafnkell.
Ferðin til borganna þriggja hefst á sunnudag og stendur í tæpa viku. Sjálfstæðismenn í borgarráði Reykjavíkurborgar gerðu athugasemd við að til stæði að ferðast þvert á milli heimsálfa og óskuðu eftir upplýsingum um kostnað borgarinnar við ferðina.
Hrafnkell segir að upphaflega hafi hugsunin verið að heimsækja borgirnar þrjár í tveimur mismunandi ferðum. Það hafi hins vegar komið betur út fjárhagslega og skipulagslega að sameina þær í eina. Sérstaklega sé Vancouver áhugaverð borg fyrir sveitarfélögin hér þar sem hún sé framarlega í því sem hann kallar þroskuðu samstarfi ríkis og sveitarfélaga.
„Vissulega er þetta langt flug en það er svo sem ekki stærsta málið í þessu samhengi. Það er betra að fara langt eftir góðum fordæmum en styttra eftir einhverju sem nýtist okkur verr,“ segir hann.