Meiri og jákvæðari viðbrögð en von var á

Helga Dögg Björgvinsdóttir, núverandi formaður landssambands sjálfstæðiskvenna, Þórey Vilhjálmsdóttir og …
Helga Dögg Björgvinsdóttir, núverandi formaður landssambands sjálfstæðiskvenna, Þórey Vilhjálmsdóttir og Jarþrúður Ásmundsdóttir, fyrrverandi formenn landssambandsins.

Þær Helga Dögg Björgvinsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, og Þórey Vilhjálmsdóttir, fyrrverandi formaður landssambandsins, segjast hafa mætt skilningi og fengið góð viðbrögð við þeirri ákvörðun sinni að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum.

Í yf­ir­lýs­ingu sem þær birtu á Face­book í gær ásamt Jarþrúði Ásmundsdóttur, sem einnig er fyrrverandi formaður Landsambandsins, kem­ur fram að þær telji „full­reynt að hreyfa við þeim íhalds­sömu skoðunum og gild­um sem ríkja um jafn­rétt­is­mál í Sjálf­stæðis­flokkn­um.“

Frétt mbl.is: Prófkjörsleiðin ekki gallalaus

„Við finnum fyrir miklum skilningi, enda vita allir að við erum búnar að leggja okkur mikið fram við að gera þetta innan flokks að breyta þessari stöðu en því miður án árangurs. Þannig að ef maður ætlar að fylgja hjartanu þá var þetta augljóst næsta skref,“ segir Þórey í samtali við mbl.is.

Helga Dögg segist mest megnis hafa fengið „afskaplega jákvæð viðbrögð“ frá almenningi, úr grasrótinni í flokknum og frá femínistum sem hún er í sambandi við þvert á pólitískar línur.

Frétt mbl.is: Þrír formenn sjálfstæðiskvenna yfirgefa flokkinn

Þórey segir viðbrögðin við ákvörðun þeirra að segja sig úr flokknum hafa verið meiri og jákvæðari en hún átti von á. „Síminn er ekki búinn að stoppa og það hefur rignt inn tölvupóstum,“ segir hún. Þá hafi sér komið á óvart að það séu ekki bara konurnar sem láti í sér heyra. „Það eru líka karlar sem eru að hafa samband, sem eru alveg jafn ósáttir við þetta og konurnar.“

Heyrt frá fleirum sem ætla að fylgja í fótspor þeirra

Haft var eftir Jarþrúði í fréttavef RÚV í gær að 11 af 14 stjórnarmeðlimum Landssambands Sjálfstæðiskvenna hafi, eða ætli að segja sig úr stjórninni og að í þeim hópi séu nokkrar konur sem ætla að segja sig alfarið úr Sjálfstæðisflokknum. Helga Dögg staðfestir þetta og þær Þórey segjast báðar hafa heyrt frá öðrum flokksfélögum sem ætli að fylgja í fótspor þeirra og einhverjir hafi gert það nú þegar.

Spurðar hvort þær hafi fengið viðbrögð við úrsögn sinni frá flokksforystu Sjálfstæðisflokksins segja þær svo ekki vera.

Leitað var viðbragða hjá Þórði Þórarinssyni, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, hvort einhverjar úrsagnir úr Sjálfstæðisflokknum hefðu borist í dag. Hann sagði samkvæmt fyrri venju aldrei vera greint frá inngöngu nýrra félaga eða úrgöngu úr flokknum.

Kjósa þarf nýja Landssambandsstjórn og þarf að boða til slíks fundar með viku fyrirvara, samkvæmt upplýsingum mbl.is hefur sá fundur þó enn ekki verið boðaður.

„Tiltölulega kátur kvenkyns kjörinn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins“

Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi sem skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður, tjáði sig um málið í Facebook-færslu í dag þar sem hún sagðist ekki ætla  að gera lítið úr þeim vanmætti sem konur finni fyrir þegar þeim líður eins og þeirra verk séu ekki metin til jafns á við gjörðir karlanna „Það er ósanngjarnt og vont,“ sagði Hildur í færslu sinni.

„Ég ætla ekki að fara í kvenkynsútgáfu af hrútskýringu og segja þeim konum sem hafa kosið að segja sig frá Sjálfstæðisflokknum hvernig þeim líður. En ég ætla að leyfa mér að biðja um að það sé þá heldur ekki fullyrt fyrir hönd allra sjálfstæðiskvenna hvernig þeim líður.

Ég er að minnsta kosti tiltölulega kátur kvenkyns kjörinn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem er þar bæði frjálslynd og frjáls til allra verka. Ég á vissulega í alls konar átökum við mína flokksmenn um málefni og hugmyndir, og stend og fell með því. Ég tel það eðlilegt í stjórnmálastarfi. Mér finnst það stundum hellings erfitt, en þess virði,“ segir Hildur í sínum skrifum.

Hætt flokkapólitískum afskiptum

Spurð hvort þær muni áfram starfa á pólitískum vettvangi eftir úrsögnina úr Sjálfstæðisflokknum segir Helga Dögg að maður eigi aldrei að segja aldrei. „Ég sit ennþá í stjórn Kvenréttindasambandsins, sem er kvennapólitískur vettvangur og þar kem ég til með að starfa áfram, en ég er hætt í Sjálfstæðisflokknum og hætt afskiptum af flokkapólitísku starfi, a.m.k í bili,“ segir hún.

„Ég er ekki að fara í neinn annan stjórnmálaflokk,“ segir Þórey. „Það eina sem ég er að gera núna er að segja mig úr Sjálfstæðisflokknum, en auðvitað er áhuginn á stjórnmálum ennþá til staðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert