Mannfall varð í hverfinu í borginni Aleppo þar sem Khattab al-Mohammad og fjölskylda hans bjuggu, áður en þau komu til Íslands sem flóttamenn, í sprengjuárásum stjórnarhersins í gær. Khattab segir erfitt að fá fregnir af vinum og ættingjum í borginni og þungbært sé að geta ekkert gert.
Frétt mbl.is: Öryggisráðið fundar um Aleppo
Sýrlenski stjórnarherinn hefur látið til skarar skríða gegn uppreisnarmönnum sem ráða yfir hluta Aleppo undanfarna daga. Uppreisnarmennirnir fullyrða að Rússar taki þátt í lofthernaðinum gegn þeim.
Khattab segir í samtali við Mbl.is að hann og fjölskylda hans, sem hafa búið á Akureyri frá því í febrúar, hafi frétt frá aðgerðasinnum í borginni að hverfið þeirra hafi orðið fyrir flugskeyti eða annars konar sprengju í gær. Að minnsta kosti níu séu látnir, fjöldi manns særðir til viðbótar og aðrir grafnir undir húsarústum. Erfitt sé hins vegar að nálgast nákvæmar upplýsingar.
Frétt mbl.is: „Góður vinur er betri en slæmur bróðir“
„Auðvitað höfum við miklar áhyggjur því þarna eru fjölskyldur okkar og vinir,“ segir Khattab. Erfitt sé að ná sambandi við fólk í borginni og eina leiðin til að vita eitthvað sé í gegnum fréttamenn sem segi heiminum hvað sé að gerast eða samfélagsmiðla eins og Facebook.
Því er engin leið fyrir Khattab að vita hvort að ættingjar og vinir séu heilir á húfi. Eina ástæðan fyrir því að hann vissi að hverfið hans hafi orðið fyrir árás sé sú að nafnið hafi verið nefnt í frétt.
Hörmulegar lýsingar hafa borist af ástandinu í Aleppo sem er sagt vera eins og eftir heimsenda. Þá hefur Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna sagt frá því að hluti borgarbúa sé án vatns eftir árásirnar.
„Af því sem við sjáum á Facebook og fjölmiðlum er ástandið mjög slæmt,“ segir Khattab sem vandar Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, ekki kveðjurnar. Árásirnar síðustu daga beinist aðeins að þeim sem séu andsnúnir stjórnvöldum og jafnvel björgunarmenn séu skotmörk árása. Kallar hann Assad stríðsglæpamann og óðan einræðisherra.
Frétt mbl.is: Aleppo vatnslaus eftir loftárásir
Khattab segist vilja gera eitthvað fyrir fólkið heima í Aleppo og segist hafa íhugað að fara með fjölskylduna til Reykjavíkur til að standa fyrir framan Alþingishúsið og lýsa yfir andstöðu þeirra við stríðið sem hann kallar brjálæðislegt.
„Ég lít á hverja manneskju þarna sem bróður eða barnið mitt. Þegar maður sér börn grafin undir húsum þá er það stríðsglæpur. Við erum mjög sorgmædd yfir ástandinu og vitum ekki hvenær þetta endar,“ segir hann.
Allir feður og mæður í heiminum ættu að sjá myndirnar frá Aleppo og reyna að gera eitthvað gegn Assad sem hann kallar glæpamann. Þá segir Khattab Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og Barack Obama Bandaríkjaforseta bera sína ábyrgð. Obama með þögninni en Pútín með því að gerast meðsekur í glæpum Assad.