Flug Rússanna ekki ólöglegt

Þetta var í annað skiptið á árinu sem óþekkt flugumferð …
Þetta var í annað skiptið á árinu sem óþekkt flugumferð fer um íslenska flugstjórnarsvæðið. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Rússneskar herflugvélar brutu ekki neinar reglur þegar þær flugu beint undir íslenskri farþegaþotu í síðustu viku, samkvæmt upplýsingum Isavia. Þetta er í annað skiptið á þessu ári sem vart verður við óþekkta flugumferð á flugstjórnarsvæði Íslands, sem er svipað og fyrri ár.

Morgunblaðið sagði frá því í dag að tvær rússneskar herflugvélar sem auðkenndu sig ekki og flugu án þess að hafa staðsetningarbúnað að fullu í gangi hafi flogið beint undir íslenskri farþegaþotu.

Frétt mbl.is: Sprengjuflugvél flaug undir íslenskri þotu

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir ekkert banna flug Rússana á því alþjóðlega svæði sem þeir voru. Þá hafi fjarlægð á milli flugvélanna verið í samræmi við alþjóðlegar reglur. Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins voru á bilinu 6.000 til 9.000 fet á milli flugvélanna á lofti.

Í heildina hafa því nú verið fjögur skipti á þessu ári sem flugvélar sem fljúga ekki eftir flugáætlun og gefa ekki upp staðsetningu sérstaklega til flugumferðarstjórnar koma inn á íslenska flugstjórnarsvæðið, að sögn Guðna. Tvö skipti voru skráð 17. febrúar og tvö á fimmtudag.

Í fyrra hafi skiptin verið fimm á fjórum dögum, árið 2014 voru þau fjögur á þremur dögum og árið 2013 hafi skiptin verið sex á fimm dögum. Því segir Guðni ekki hægt að segja að þessum ferðum hafi fjölgað undanfarið. Hann hefur ekki staðfestar upplýsingar um hvaða flugvélar voru á ferðinni í þessum tilfellum.

Frétt mbl.is: Ítrekaðar athugasemdir við flug Rússa

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert