Jarðskjálfti sem mældist 3,9 stig varð í Mýrdalsjökli klukkan 13:30 í dag. Nokkrir eftirskjálftar hafa mælst í kjölfarið en engin merki eru um gosóróa samkvæmt upplýsingum frá jarðvársviði Veðurstofu Íslands.
Starfsmenn í rannsóknarhóp frá Jarðvísindastofnun voru á Brekkum í Mýrdal og fundu vel fyrir skjálftanum, en upptök hans voru sunnarlega í Kötluöskjunni undir Mýrdalsjökli. Vel er fylgst með svæðinu allan sólahringinn, af jarðvársviði Veðurstofu Íslands.
Skjálftahrina hófst í Mýdalsjökli 29. ágúst og mældust tveir skjálftar um 4,5 að stærð í norðurhluta Kötluöskjunnar. Þeir eru stærstu skjálftar sem mælst hafa í Kötlu frá árinu 1977. Samdægurs mældist skjálfti af stærð 3,1 um 4 km norðan við Grindavík sem fannst í bænum sem og í Hafnarfirði. Hinn 30. ágúst varð skjálfti í Bárðarbungu af stærð 3,8. Annar markverður atburður varð 1. september en vegfarendur í Landmannalaugum urðu varir við skjálfta sem mældist rúmlega 1,7 að stærð við Brennisteinsöldu.
Heldur minni virkni var í Mýrdalsjökli í síðustu viku samanborið við fyrri viku. Tæplega 40 jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, þar af 29 innan Kötluöskjunnar. Stærsti skjálftinn var 2,6 að stærð þann 14. september kl 11:26. Fjórir skjálftar mældust undir Kötlujökli, sá stærsti 0,4 að stærð.